Hér að neðan fer fram bein textalýsing frá drættinum á EuroBasket 2015 en á næsta ári mun Ísland í fyrsta sinn taka þátt í lokakeppni Evrópumeistaramótsins. Á eftir skýrist það hvort Ísland muni leika í riðli í Frakklandi, Þýskalandi eða í Króatíu.
_____________________________________________________________________________________________________________
– Þá er það ljóst – Ísland mun leika í Berlín í Þýskalandi í B-riðli…það er óhætt að segja að þetta sé dauðariðillinn og sá langsterkasti á mótinu!
B-riðill – Þýskaland
Þýskaland
Spánn
Serbía
Tyrkland
Ítalía
Ísland
– Þá styttist í dráttinn – við munum fylla inn í riðlana hér að neðan um leið og þeir skýrast:
A-riðill – Frakkland
Frakkland
Finnland
Bosnía
Pólland
Ísrael
Rússland
B-riðill – Þýskaland
Þýskaland
Spánn
Serbía
Tyrkland
Ítalía
Ísland
C-riðill – Króatía
Króatía
Slóvenía
Grikkland
Makedónía
Georgía
Holland
D-riðill – Lettland
Lettland
Litháen
Úkraína
Belgía
Tékkland
Eistland
– Fjögur mismunandi lönd og fimm borgir munu hýsa EuoBasket 2015 en fyrir nokkrum mánuðum var ákveðið að mótið færi ekki fram í Úkraínu eins og upphaflega stóð til en sú ákvörðun var afturkölluð sökum ástandsins í Úkraínu. Eins og flestum er svo kunnugt er þetta í fyrsta sinn sem Ísland mun taka þátt í lokakeppni EuroBasekt 2015.
– Hér á Sólon veitingastað í Reykjavík vantar ekki kempurnar að fylgjast með, Birgir Mikaelsson, Kolbeinn Pálsson, Pétur Hrafn Sigurðsson fyrrum framkvæmdastjóri KKÍ, Jón Otti og Herbert Arnarson svo einhverjir séu nefndir. Athöfnin í Frakklandi er hafin í Disneyland og þið getið fylgst aðeins með bakdyramegin með því að kíkja á karfan.is á Snapchat.
– RÚV sýnir í beinni í sjónvarpinu frá drættinum… það eru kollegarnir Haukur Harðarson íþróttafréttamaður hjá RÚV og tengdafaðir hans og formaður afreksnefndar KKÍ, Páll Kolbeinsson, sem lýsa drættinum á RÚV.
– Nýjir landsliðsbúningar verða kynntir til sögunnar á næstu dögum segir Guðbjörg… verður spennandi að sjá hvernig þeir muni líta út.
– „Þetta verður stærsta körfuboltasumarið okkar hingað til“ segir Guðbjörg Norðfjörð en í sumar verður m.a. spilað eftir nýju fyrirkomulagi þar sem kvennalandsliðið mun leika í svokölluðum landsliðsgluggum, heima og að heiman. Verkefni karlalandsliðsins sagði Guðbjörg vera nokkuð skýr en þar er þátttaka í Smáþjóðaleikum og svo á sjálfri lokakeppni Evrópumeistaramótsins. Þá verður sumarið einnig annasamt hjá yngri landsliðum Íslands og kvaðst Guðbjörg stolt af því mikla starfi sem er í gangi hjá sambandinu á komandi ári.
– Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ er stödd í Reykjavík og leiðir blaðamannafundinn hér á Solon. Hún var að greina frá því að meðlimir „Körfuboltafjölskyldunnar“ hafi nú safnað rúmum sex milljónum króna til handa Íslandi og þátttökunni í EuroBasket 2015. Mögnuð frammistaða hjá Körfuboltafjölskyldunni.
– Hannes S. Jónsson formaður KKÍ, Craig Pedersen landsliðsþjálfari Íslands og Kristinn Geir Pálsson íþróttafulltrúi KKÍ eru staddir í Disneyworld í París þar sem drátturinn fer fram. Kristinn Geir fer einnig með ritstjórnarvöld Karfan.is á Snapchat í dag.
– KKÍ heldur nú blaðamannafund á Sólon veitingastað í Reykjavík þar sem sýnt verður í beinni frá drættinum á EuroBasket 2015. Landsliðsmennirnir Logi Gunnarsson, Pavel Ermolinskij og Helgi Magnússon eru mættir til að fylgjast með drættinum ásamt Finni Frey Stefánssyni öðrum af tveimur aðstoðarlandsliðsþjálfurum.



