spot_img
HomeFréttirErum við ekki í keppni?

Erum við ekki í keppni?

16:00

{mosimage}

Hættum þessu bulli og stöndum saman!

Undanfarið hefur skapast frekar leiðinleg og neikvæð umræða um íslenskan körfubolta sem þarf að eyða.  Þessi umræða hefur að sjálfsögðu snúist um það hverjir eru með útlendinga og hverjir ekki  og jafnvel farið í það að gagnrýna lið sem eru með sterka íslenska leikmenn.  En þetta snýst bara alls ekki um það, við erum í keppni þar sem hver og ein stjórn og hvert félag reynir að búa til nógu sterkt lið til að skáka hinum óháð því hvaðan menn koma og hverjir þeir eru.  Telji forráðamenn liðanna sig hafa bolmagn og getu til að borga laun þessara manna, íslenskra og erlendra, þá er það bara þannig og engar refjar.  Ef menn ætla sér að fara í samanburð þá ættu menn frekar á líta á heildar launapakka félaganna og þá er alveg ljóst að þau lið sem hafa erlenda leikmenn á launaskrá eru sennilega langt frá því að vera með stærstu pakkana. 

Eitt sinn var sett launaþak á í þessari deild sem er löngu fokið út í veður og vind (enda oft hvasst á klakanum). Er kannski kominn tími á það aftur og gera það þá skilvirkara en það var þar sem all flestir virtu það að vettugi og voru búnir að finna leiðir framhjá því áður en það var komið á.

En eins og áður sagði þá skiptir þetta ekki máli, við erum í keppni sem snýst um að menn búi til lið eftir þeim leikreglum sem eru í gangi, lið sem á að skáka hinum liðunum, óháð því hvaðan menn eru eða hverjir þeir eru.

Að þessu sögðu er rétt að hreyfingin, forráðamenn, þjálfarar, blaðamenn og aðrir sem að körfubolta koma hætti að hnýta í og kítast um þessa hluti og standa saman um körfuboltann og fjalla um hann á jákvæðum nótum og hafa gaman af þessari stórskemmtilegu íþrótt okkar.

Lið er lið, hvað sem menn koma og hverjir þeir eru!

 Fyrir hönd Körfuboltans                                                                                           
Sveinn Brynjar Pálmason

Fréttir
- Auglýsing -