Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í CAI Zaragoza voru alls ekki langt frá því að komast áfram í EuroCup keppninni þegar þeir töpuðu naumt í kvöld gegn Besiktas á heimavelli, 77:79. ” Við erum gríðarlega svekktir því við eigum að vinna þetta lið. Við byrjuðum illa en komust inn í leikinn aftur og leiddum með 5 stigum í hálfleik. En við bara náðum ekki að sýna okkar rétta andlit í seinni hálfleik og vorum frekar flatir.” sagði Jón Arnór í samtali við Karfan.is eftir leik.
“Þeir skora á Buzzer í lokin og unnu með tveimur. Við vorum nálægt því að koma þessu í framlengingu og eiga þá séns á að vinna leikinn með 7 stigum sem við þurftum til að komast áfram. En ég get ekki útskýrt afhverju við vorum svona slakir í seinni hálfleik.” sagði Jón enn fremur. Zaragoza náðu ekki að spila leikinn á sínum heimavelli í Pabellon Principe Felipe vegna þess að “skrifstofan” sendi vitlausar upplýsingar á stjórnendur Eurocup og sú dagsetning sem þeir sendu var höllin bókuð undir tónleikahald. Því þurfti að spila leikinn í um klukkutíma fjarlægð frá heimavellinum. “Þetta var þvílíkt klúður hjá þeim og án þess að nota það sem afsökun þá er ég handviss um að við hefðum tekið þá með 20 á okkar parketi. En klárlega mikil vonbrigði að komast ekki í 8 liða úrslit.” sagði Jón fremur súr eftir leik kvöldsins.
“Þegar á heildina er litið þá vorum við ekki að spila vel í Evrópu í ár. Við gerðum alls ekki vel á útivelli og vorum í bara heppnir í Króatíu. Án þess að vera með hroka þá erum við með lið sem ætti að fara langt í þessari keppni þannig að það eykur enn á vonbrigðin ” sagði Jón að lokum.



