spot_img
HomeFréttirErum að hefja nýtt tímabil! KR burstaði Stjörnuna (Umfjöllun)

Erum að hefja nýtt tímabil! KR burstaði Stjörnuna (Umfjöllun)

21:33
{mosimage}

(Jón Arnór spólar sig í gegnum Stjörnuvörnina sem lak líkt og gatasigti í kvöld)

,,Þessi sigur okkar er alls ekki að fara að bæta fyrir tapið gegn Stjörnunni í Höllinni á sunnudag! Það hefði ekki skipt neinu máli að vinnan þennan leik með 50 stiga mun því leikurinn í kvöld hefur ekki nálægt því sömu þýðingu og bikarleikurinn,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR eftir stórsigur sinna manna á nýkrýndum Subwaybikarmeisturum Stjörnunnar. Lokatölur leiksins voru 116-87 KR í vil sem áttu sigurinn vísann strax í fyrri hálfleik. Garðbæingar fengu ærlega yfirhalningu í DHL-Höllinni og sáu aldrei til sólar gegn baráttuglöðum KR-ingum sem allir komust á blað í kvöld. KR er sem fyrr á toppi Iceland Express deildar karla nú þegar 18. umferðin er hafin en Grindvíkingar fylgja þeim sem skugginn.

,,Við erum búnir að fara vel yfir okkar mál og nú erum við að hefja nýtt tímabil! Frá mér og niður voru svona tveir leikmenn sem áttu góðan leik í Höllinni og enginn þjálfari og það er ekki vænlegt til árangurs,“ sagði Benedikt Guðmundsson og ljóst að sigurinn hafði lítil áhrif á hann í kvöld. ,,Við þurfum að klára okkar leiki og þar liggur einbeitingin okkar núna, við tókum ansi djúpa dýfu í Höllinni og tíminn hefði ekki getað verið verri. Nú erum við einbeittari sem aldrei fyrr,“ sagði Benedikt.

Baldur Ólafsson átti magnaða innkomu í liði KR en hann lék aðeins tæpar 10 mínútur í leiknum og gerði á þeim tíma 12 stig, tók 6 fráköst og varði 2 skot. Er hann að reyna að sanna eitthvað fyrir Benna þjálfara?
,,Hann er búinn að vera í einkaþjálfun hjá Þjóðverja sem er að vinna fyrir okkur og hann er að skila Baldri af sér í ágætu standi og eins og staðan er núna getur hann skilað 3-4 mínútum í sitt hvorum hálfleiknum. Baldur getur alltaf skorað en hefur verið að komast hægt og rólega inn í vörnina hjá okkur,“ sagði Benedikt en vörn KR var glæsileg í kvöld framan af leik en bæði lið léku kæruleysisbolta nánast allan síðari hálfleikinn því KR var búið að gera út um leikinn.

Darri Hilmarsson var í byrjunarliði KR í kvöld og lét strax fyrir sér finna er hann gerði fjögur fyrstu stig leiksins. Fannar Ólafsson miðherji KR lenti snemma í villuvandræðum og lék lítið í leiknum í kvöld en hann fékk m.a. 3 villur snemma í fyrsta leikhluta. Heimamenn í KR leiddu 21-19 í fínum upphafsleikhluta og allt benti til þess að góður leikur væri framundan en svo varð raunin aldeilis ekki.

{mosimage}

KR pressaði vel á gesti sína sem töpuðu 22 boltum í leiknum. Snemma í öðrum leikhluta höfðu KR-ingar gert 16 stig gegn 4 frá Stjörnunni og staðan orðin 37-23. Vörn heimamanna var fyrnasterk og Stjörnumenn virtust einfaldlega ekkert erindi eiga í leikinn, hvort þeir hafi verið saddir og ekki fundið neistann til að berjast skal ósagt látið en þetta var fjarri því sama lið og fagnaði bikarmeistaratitlinum síðasta sunnudag.

Leikar stóðu svo 59-37 í háflleik fyrir KR þar sem Darri Hilmarsson og Jason Dourisseau voru báðir komnir með 11 stig hjá KR en þeir Jovan Zdravevski og Justin Shouse voru báðir með 12 stig í liði Stjörnunnar.

Síðari hálfleikur var aldrei spennandi en Vesturbæingar allir sem einn sýndu sínar bestu hliðar þar sem allir skoruðu í leiknum og sjö leikmenn liðsins gerðu 10 stig eða meira í leiknum. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 89-54 fyrir KR og margir hreinlega farnir að bíða eftir að aftökunni lyki.

Loks kom að því að lokaflautan gall og sýndi nýja leikklukkan í DHL-Höllinni þá stöðuna 116-87 sigur KR og nánast ótrúlegt að Stjarnan hafi fyrir fáeinum dögum lagt KR að velli í bikarúrslitaleik. Frammistaða Stjörnunnar voru talsverð vonbrigði en þeirra atkvæðamesti maður í kvöld var Jovan Zdravevski með 30 stig og Justin Shouse gerði 20.


Hjá KR voru þeir Helgi Már Magnússon og Jason Dourisseau báðir með 16 stig og Jón Arnór Stefánsson gerði 14.

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -