spot_img
HomeFréttirEru ekki allir að bíða eftir miðvikudagskvöldinu?

Eru ekki allir að bíða eftir miðvikudagskvöldinu?

 

 

Þvílíkir leikir sem önnur umferð undanúrslitanna í Dominosdeild karla bauð upp á! Spenna, óvænt úrslit, frábær tilþrif og geggjuð umgjörð. Staðan í báðum viðureignunum er 1-1, eins og allir vita. Pepp fyrir næstu umferð skrifar sig sjálft – hér er það!

 

Tindastóll-ÍR, leikur 2: Það er oft sagan á bakvið seríurnar sem heillar körfuboltaaðdáendur. Allir þekkja forsöguna fyrir þennan leik. Ryan Taylor lauk afplánun í þessum leik og Stólarnir voru klaufar að vinna ekki fyrsta leikinn stærra. Árangur ÍR-inga í vetur hefur komið mörgum á óvart og enn hafa menn sínar efasemdir um liðið. Án Ryan Taylor og eftir sannfærandi tap í fyrsta leik, ef svo má að orði komast, höfðu fáir trú á því að ÍR-ingar ættu að eyða bensíni í ferð á Krókinn. Undirritaður ætlar ekki að setja sig á háan hest og viðurkennir fúslega að hann sá nákvæmlega enga von fyrir ÍR-liðið. Kannski sáu liðsmenn Stólanna hlutina nákvæmlega sömu augum… og dramb er falli næst.

 

ÍR-Tindastóll, leikur 3: Nú mæta ÍR-ingar með fullmannað lið, bæði innan sem utanvallar þar sem Hellirinn verður PAKKAÐUR á morgun. Það blasir við að ÍR-ingar ,,eiga“ að vinna þennan leik – sjálfstraustið ætti að vera mikið og þeirra besti maður kemur aftur inn í liðið. En sagan er bara betri en þetta! Stólarnir ætla að verða meistarar. Markmiðið er ekki að stríða liðum í úrslitakeppninni, aldeilis ekki! Liðsstjórn Israels Martin hefur þurft að þola nokkuð harða gagnrýni í þessari seríu og hann þarf að sanna að hann geti stýrt þessu hæfileikaríka liði í gegnum rimmuna. Í stuttu máli er stál í stál og sama hvernig fer verður hágæða skemmtun í boði í leik 3.

 

 

KR-Haukar, leikur 2: Það sem er svo spennandi við þessa seríu er sú staðreynd að Haukar eru betri – punktur. Það er bara ekki alltaf nóg í íþróttum, sérstaklega ekki gegn margföldum meisturum KR. Haukar virtust stefna mjög að því að vinna leik 2 með nákvæmlega einu stigi og alls ekki meir! Það er þekkt vandamál, allir hafa séð slíka meinloku herja á íþróttalið. Bjössi jafnaði leikinn með þristi í lokin og ætli margir myndu ekki taka undir þá fullyrðingu að sá þristur vann leikinn 76-76. Það  er nefnilega alveg hægt að vinna leiki sem fara jafntefli, Ísland vann Frakkland 1-1 í fótbolta einu sinni…

 

Haukar-KR, leikur 3: Fáir hafa lýst því betur en Óli Stef hvað sigurhefð skiptir miklu máli. Í KR-liðinu eru engir nýgræðingar og þeir eru vanir því að vinna. Litlu kallarnir í hausnum á KR-ingum eru jákvæðir og bjartsýnir á sigur vegna þess að þeir hafa upplifað það svo oft. Þeir eru eins og hundar Pavlovs – þeir bregðast alltaf rétt við áreiti úrslitakeppninnar. Haukar hafa þetta ekki og litlu kallarnir í hausnum á þeim eru ekki sannfærðir um að þeir geti unnið á stóra sviðinu. Það er efinn sem er fyrir þeim, jafnvel þó svo að þeir viti vel að þeir eru hæfaleikaríkari.

 

            Við þetta verður að bæta að meiðsli lykilmanna hjá KR er ástæðan fyrir þeirri umdeilanlegu fullyrðingu að Haukaliðið sé betra. Það skiptir miklu máli hver staðan verður á Jóni, Pavel og Brilla á miðvikudaginn. Verði þeir allir í það minnsta sæmilega leikfærir þurfa Haukar að yfirstíga efann ætli þeir sér sigur.

 

Hvað sem öllum söguskýringum og vangaveltum líður fáum við tvo geggjaða leiki á miðvikudagskvöldið – það bara getur ekki klikkað sama hvernig fer!

 

 

Texti /Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -