06:00
{mosimage}
Í þeim efnahagserfiðleikum sem Íslendingar standa nú frammi fyrir ásamt fleiri þjóðum heims þá herðir sultarólina víða og vart hefur það farið fram hjá körfuknattleiksunnendum að félög í úrvalsdeild hafa sagt upp samningum við erlenda leikmenn í sínum röðum. Breiðablik, ÍR, Snæfell og Njarðvík leika án erlendra leikmanna í vetur og vitað er að stjórnir margra körfuknattleiksdeilda á Íslandi hugsa nú alvarlega sinn gang. Erlendir leikmenn fá greitt í erlendri mynt og því hafa laun þeirra snarhækkað og félögin sjá sér ekki fært um að veita þeim atvinnu.
Körfuknattleiksdeildirnar sem hafa sagt upp sínum erlendu leikmönnum eru vafalítið að bregðast við því ástandi sem nú dynur yfir og gera það af mikilli ábyrgð. Nú eru eflaust margir sem spyrja sig hvort ekki fleiri lið muni láta sína erlendu leikmenn fara og er svarið eflaust já við þeirri spurningu. Hvaða félög munu bætast í hópinn er óljóst en vitað er að í mannafla og fjárráðum standa sum félög betur en önnur.
Þau félög sem ætla sér að hafa erlenda leikmenn í vetur og geta staðið undir þeim kostnaði munu sennilega skipa sér í efri hluta deildanna. Það er þó væntanlega ósk flestra að stjórnendur körfuknattleiksdeilda í landinu sýni ábyrgð og skynsemi í þessu árferði og tryggi rekstrargrundvöll sinnar deildar eða þenji ekki seglin um of. Enginn erlendur né íslenskur leikmaður er þess virði að heilli deild sé stofnað í hættu í eltingaleik við titil sem er í boði á hverju ári!
Nú þegar sterkustu leikmenn Íslands hafa snúið aftur heim og munu leika í efstu deild er vart annað hægt en að kætast og undirbúningstímabilið og þeir leikir sem þar hafa farið fram gefa ekki tilefni til neins annars en tilhlökkunnar fyrir komandi leiktíð. Vissulega verður sjónarsviptir hjá mörgum liðum og hætt við því að mikið bil myndist í deildina á milli sterkustu liðanna og þeirra veikari. Engu að síður hefur hér opnast dýrmætur gluggi fyrir unga og óreynda íslenska leikmenn til þess að stíga fram á sjónarsviðið og sýna hvað í þeim býr.
Takist íslenskum körfuknattleik að bjóða upp á góðan körfubolta og spennandi keppni í vetur við núverandi aðstæður er mikill sigur unninn þar sem síðustu ár hefur jafnan verið leitað til erlendra leikmanna þegar allt er í járnum í körfuboltaleik. Nú geta íslenskir leikmenn, ungir sem aldnir, stigið upp og axlað forna ábyrgð sem í svo mörgum félögum hefur verið sett á herðar erlendra leikmanna.
Þó ástandinu beri vissulega ekki að fagna þá verður að fullnýta öll þau tækifæri sem það kann upp á að bjóða. Félög utan af landi sumhver treysta á erlenda leikmenn til þess að ná að fullmanna sín lið því það er þekkt að erfitt hafi reynst að fá íslenska leikmann af mölinni út á land. Hjá þessum félögum er staðan grafalvarleg og miklar vonir bundnar við að þessi félög finni úrlausn á sínum málum. Því er það skylda íslensku körfuknattleikshreyfingarinnar, leikmanna, stjórnarmanna, áhorfenda og í raun allra, að snúa saman bökum til handa þeirri íþrótt sem við unnum og láta ekki deigan síga.
Íslandsmótið í úrvalsdeildum og neðri deildum er á næsta leiti og síðustu ár hefur verið mikill uppgangur í íslenskum körfuknattleik. Sjálfum leiknum hefur farið mikið fram og almenningur hefur í auknum mæli sýnt körfubolta áhuga enda hafa margir lagt mikla vinnu í það að skapa skemmtilega og góða umgjörð um sín lið og hreyfinguna í heild sinni.
Karfan.is sendir öllum körfuknattleiksfélögum í landinu baráttukveðjur og óskar þeim velfarnaðar á komandi tímabili.
Fyrir hönd Karfan.is
Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is