Nú um helgina birtist frétt á karfan.is um leiki Laugdæla og andstæðinga þeirra í Subwaybikarnum. Sá sem ritaði gagnrýndi það að sendir voru fjórir dómarar í tvo leiki á Laugarvatni. Nú hefur karfan.is borist erindi frá Dómaranefnd KKÍ sem er ábyrg fyrir niðurröðun dómara og er erindið birt hér.
Vegna umræðna um dómarakostnað og niðurröðun á tvo leiki í 16 liða úrslitum subway bikars KKÍ á Laugarvatni vill dómaranefnd taka fram;
Dómaranefnd reynir ávallt að vinna faglega að sínum niðurröðunum. Taka þarf tillit til ýmissa þátta í þeirri vinnu. Umræðan um þessa leiki sérstaklega snýst eingöngu um þá hagsmuni félaganna að kostnaðurinn vegna dómara sé í lágmarki. Ekki skal gert lítið úr þeim sjónarmiðum enda reynir nefndin ávallt að taka tillit til þeirra. Fjölmargir aðrir þættir koma við sögu þegar mat er lagt á niðurraðanir almennt sem ekki verða raktir hér.
Dómaranefnd lítur svo að um bikarleiki geti gilt önnur lögmál en aðra leiki. Það er okkar faglega mat og mönnum frjáls að hafa aðra skoðun. Eðli bikarleikja er allt annað en deildarleikja og ekki annar möguleiki ef illa fer. Bikarkeppnir eru þekktar fyrir óvænt úrslit og ófyrirséð svo langt sem menn muna. Dómaranefnd efast ekki um í hvern farveg gagnrýni á tvo dómara á tvo leiki í röð myndi beinast ef eitthvað orkaði tvímælis í dómgæslu í slíkum leikjum. Það er því okkar faglega mat að almennt verði ekki gerðar undantekningar í leikjum bikarkeppni meistaraflokks.
Þeir sem gerst þekkja til starfa dómaranefndar vita að mjög mikil vinna hefur verið lögð í að búa til og hafa upp á dómurum á Suðurlandi þetta keppnistímabilið og ekki hefur skort á vilja nefndarinnar til að halda kostnaði þar niðri eins og mögulegt er. Teljum við að með góðra manna hjálp og vilja hafi tekist ótrúlega vel til. Vera kann að þeir góðu menn sem stýra metnaðarfullu starfi á Laugarvatni hafi gleymt sér augnablik þegar þeir gagnrýna dómaranefnd nú þegar hún tekur faglega og af metnaði ákvörðun um að sýna bæði karla og kvennaleikjum bikarkeppninnar fulla virðingu.
Dómaranefnd KKÍ