,,Maður auðvitað lítur á stöðuna í deildinni þegar farið er inn í hvern leik. Stundum býst maður við því að ákveðnir hlutir geti bara ekki gerst en úrslitin í gær sýndu að lið neðar í deildinni geta vel sótt stig upp í töfluna,” sagið Eric James Palm við Karfan.is eftir ósigur ÍR í DHL Höllinni í gær. Eric var sem fyrr beittastur í liði ÍR með 28 stig í leiknum og þar af 23 í fyrri hálfleik.
,,Það eru ekki til neinar afsakanir þegar kemur að meiðslum, þau eru bara eitthvað sem takast þarf á við. Við lékum af hörku en þetta varð ekki okkar kvöld, samskiptaörðugleikar í vörninni og skotprósentan okkar var ekki góð og það finnst mér hafa með sjálfstraustið að gera. Nú eigum við fjóra leiki eftir í deildinni og verðum að taka okkur taki og halda áfram að berjast,” sagði Eric. ÍR-ingar hafa verið að færa aukinn kraft í varnarleik sinn en ná illa að binda liðsvörnina saman engu að síður, ákafi án árangurs.
,,Með hærra ,,tempói” í vörninni þurfum við að treysta betur á að hjálpa hver öðrum. Við erum að hafa áhyggjur af mönnum sem eru ekki góðir skotmenn og missum frá okkur sterkari skotmenn fyrir vikið sem dæmi. Þetta verðum við að laga sem og mörg grunnatriði og því þurfum við að ná fram á næstu æfingum.”



