spot_img
HomeFréttirEric Palm: Ætlunin var að stöðva Bjarna

Eric Palm: Ætlunin var að stöðva Bjarna

 
Þór Þorlákshöfn sigruðu Laugdæli er þeir komu í heimsókn, lokatölur voru 106-69. Það var fín stemning í Þorlákshöfn í gærkvöldi þegar Þór fékk Laugdæli í heimsókn. Þórsarar voru með fullt hús stiga á toppnum eftir 5 umferðir, en Laugdælir með 2 sigra í 6 leikjum. Það voru gestirnir í Laugdælum sem skoruðu fyrstu körfu leiksins og skemmst frá því að segja eina skiptið í leiknum sem þeir höfðu yfirhöndina. Það voru þeir Vlad Bulut, Eric Palm og Þorsteinn Már sem skoruðu lungann af stigum fyrsta leikhluta, en hjá gestunum var það Bjarni Bjarnason sem var allt í öllu. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 34-20.
Þórs liðið virkaði andlaust og ekki tilbúið í slagsmál eins og Laugdælir þar sem þeir börðust fyrir öllum lausum boltum og höfðu gaman af leiknum. Þrátt fyrir að Þór var ekki að spila eins vel og þeir geta þá höfðu þeir 13 stiga forystu í hálfleik 55-42 og endurspeglast þarna líklega munurinn á þessum liðum í efri hlutanum og þeim neðri.
 
Þriðji leikhlutinn var tíðindalítill, en Laugdælir sóttu þó í sig veðrið og minnkuðu muninn jafnt og þétt og kliður fór um áhorfendur þegar munurinn var kominn í 4 stig í stöðunni 64-60 þegar þriðji leikhlutinn var hálfnaður. Þegar um 3 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta þá kom vendipunktur leiksins, þá fékk Bjarni Bjarnason besti leikmaður Laugdæla tvær villur með skömmu millibili og fór útaf með 5 villur. Við brottfall Bjarna var eins og björninn væri unnin, Þór tók þá á sig rögg og kláruðu leikhlutann á því að vera 14 stigum yfir 77-63.
 
Lokafjórðungur leiksins einkenndist af yfirburðum Þórs liðsins. Þeir léku við hvurn sinn fingur og kafsigldu gestina sem virkuðu búnir á því. Þórsarar keyrðu leikinn upp og spiluðu fantagóðan bolta og hittu vel og leikgleðin komin aftur í mannskapinn og þeir höfðu gaman af að spila. Lokatölur leiksins gefa ekki góða mynd af leiknum sem var í raun í járnum, en lokatölur voru 106-69 fyrir Þór.
 
„Ætlunin var að stöðva Bjarna þar sem hann var hugmyndasmiðurinn að sóknum Laugdæla í þessum leik“ , sagði Eric Palm sem átti fínasta leik í liði Þórs.
Stigahæstu leikmenn Þórs voru Eric Palm með 30 stig, Vladimir Bulut 27 stig og 17 fráköst, Þorsteinn Már 22 stig, Emil Karel 8 stig og Baldur Þór 6 stig og 9 stoðsendingar og aðrir minna.
Hjá Laugdælum var Bjarni Bjarnason þeirra besti leikmaður með 21 stig, Pétur Már 15 stig og 5 fráköst, Sigurður Orri 14 og 5 fráköst
 
Umfjöllun: Bjarni Már Valdimarsson
 
Ljósmynd/ Úr safni: Eric Palm gerði 30 stig í gærkvöldi.
Fréttir
- Auglýsing -