Ísland mátti þola tap í sínum fyrsta leik gegn Ísrael í dag á lokamóti EuroBasket 2025, 83-71.
Leikurinn var sá fyrsti á mótinu hjá báðum liðum, en í riðil Íslands mætast seinna í dag lið Frakklands og Belgíu og svo mætir Pólland liði Slóveníu.

Fyrir leik
Gengi liðanna í æfingaleikjum nokkuð ólíkt fyrir mótið. Ísrael hafði unnið þrjá leiki af fimm á meðan íslenska liðinu tókst aðeins að vinna einn af sínum fimm leikjum.
Saga Íslands gegn Ísrael er ekki löng. Tvisvar tapaði Ísland gegn þeim í undankeppni EuroBasket árið 2012. Árið 2023 vann Ísland svo vináttuleik gegn þeim með tveimur stigum, 81-79.

Byrjunarlið Íslands
Martin Hermannsson, Elvar Már Friðriksson, Jón Axel Guðmundsson, Orri Gunnarsson og Tryggvi Snær Hlinason.
Gangur leiks
Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað og er það Elvar Már sem ber hitann og þungann í sóknarleik Íslands í upphafi. Setur hann fyrstu sex stig liðsins, en íslenska liðið í miklu basli á upphafsmínútunum með lykilmenn þeirra Deni Avdija og Roman Sorkin. Munurinn þó aðeins fjögur stig að fyrsta fjórðung loknum, 23-19.
Ísraelska liðið er enn skrefinu á undan inn í annan fjórðung. Ísland hótar því í nokkur skipti að jafna leikinn, en virðist eiga erfitt með að verjast góðu boltaflæði andstæðingsins á löngum köflum. Nánast á lyginni hangir Ísrael á forskoti sínu til búningsherbergja í hálfleik, 36-32.
Íslenska liðið fer hægt af stað inn í seinni hálfleikinn og fá á sig 0-9 áhlaup frá Ísrael. Lítið virðist ganga á þessum tímapunkti hjá Íslandi, ljótir tapaðir boltar, þristar í andlitið og heilt yfir vondar mínútur. Ísrael fer með 17 stigum yfir í fjórðungnum, en íslenska liðið vinnur það aðeins niður og gerir vel að halda þessu í leik inn í lokaleikhlutann, 60-52.
Ísraelska liðið gerir mjög vel að halda fjarlægð sinni frá Íslandi í fjórða leikhlutanum. Hægja aðeins á sínum leik og ná reglulega að búa sér til körfur nálægt hringnum í leikhlutanum. Virðist eilítið fara í taugarnar á leikmönnum íslenska liðsins hvað gengur hægt að komast inn í leikinn, eðlilega kannski, eftir að hafa verið í fullum tygjum við þetta sterka lið allan fyrri hálfleikinn.
Undir lokin nær Ísrael svo að slíta sig algjörlega frá íslenska liðinu og eru komnir 19 stigum yfir. Bekkur Íslands er þá settur í leikinn og nær sá hópur að gera ansi vel, aðallega Styrmir Snær og Hilmar Smári, kroppa í bakkann. Ná þó ekki að gera þetta að spennuleik á lokamínútunum og fer Ísrael að lokum nokkuð örugglega með sigur af hólmi, 83-71.

Kjarninn
Ekki ólíkt íslenska liðinu fannst Ísrael ágætt að keyra hraða leiksins upp og náðu þeir sér í nokkrar körfur með að keyra í bak íslenska liðsins. Það var þó ekki þannig þeim liði illa á hálfum velli, þar sem boltaflæði þeirra og einstaklingsgæði Deni Avdija sköpuði einnig helling fyrir þá. Íslenska liðið gerði þó gríðarlega vel í leiknum framan af. Fráköstuðu boltanum mun betur en nokkur þorði að vona, vörðu hringinn ágætlega og þá sýndu lykilleikmenn liðsins Elvar Már Friðriksson og Tryggvi Snær Hlinason úr hverju þeir eru gerðir.
Atkvæðamestir
Tryggvi Snær Hlinason var góður fyrir Ísland í dag með 13 stig og 14 fráköst. Þá skilaði Elvar Már Friðriksson 17 stigum, 3 stolnum boltum og Styrmir Snær Þrastarson var með 8 stig og 4 fráköst.
Hvað svo?
Íslenska liðið fær frídag á morgun, en á laugardag munu þeir mæta Belgíu kl. 12:00 í sínum öðrum leik.
Blaðamannafundur leiksins
Viðtöl væntanleg



