Gula þruman Ólafur Ólafsson samdi síðastliðið sumar við franska liðið USV Ré Basket sem staðsett er í La Rochelle í Frakklandi. Ólafur og félagar leika í NM2 deildinni sem er fjórða efsta deildin þar í landi og er liðið í 3. sæti deildarinnar nú þegar jólafríið stendur yfir. Karfan.is ræddi við Ólaf um lífið ytra en hann var í Frakklandi þegar hryðjuverkaárásirnar áttu sér stað þann 13. nóvember síðastliðinn en Ólafur og unnusta hans Katrín Ösp Eyberg urðu eins og gefur að skilja óttslegin við þessi ógnarverk sem áttu sér stað þar sem á annað hundrað manns týndu lífi.
Við tókum fyrst hús á körfuboltanum hjá Ólafi en hann segir stemmninguna í hópnum vera flotta. „Það tók okkur smá tíma að læra hver inn á annan en nú er það allt komið finnst mér. Staðan hjá liðinu er allt í lagi en hún ætti að vera betri enda verið klaufalegir í nokkrum leikjum. Liðið er með góða blöndu af ungum og eldri leikmönnum, t.d. er einn Frakki í hópnum sem heitir Pape og hann hefur leikið í efstu deildinni hérna sem og leikið í Euroleague og var í franska landsliðinu 2007 á EM. Hann var einnig valinn varnarmaður ársins tvö ár í röð í Frakklandi. Hann hætti árið 2012 en byrjaði aftur á síðasta tímabili og það er rosalega gaman og gott að hafa hann fyrir aftan sig þegar maður er að spila vörn, ekki auðvelt að koma skoti framhjá honum.“
Lífið á litlu eyjunni yndislegt
Ólafur segir sitt persónulega gengi hafa verið upp og niður, það þykir eflaust mörgum engin tíðindi en hann og Þorleifur bróðir hans hafa nú átt það til að týnast eða taka yfir heilu leikina. „Ég hef átt góða leiki þar sem ég er bara góður á öllum sviðum en svo dett ég niður í eitthvað kjaftæði hérna þegar ég fæ kannski betri varnarmenn á mig. Ég þurfti að venjast vörninni, hún er spiluð af mikilli hörku og menn komast upp með ýmislegt sem maður er kannski ekki vanur. Ég hef látið það fara of mikið í hausinn á mér en sem betur fer þekki ég menn sem hafa verið í þessu lengi og ég hika ekki við að spyrja ef ég veit ekki svarið við einhverjum spurningum. Aðstandendur hjálpa mér mikið þegar ég er ekki ánægður með sjálfan mig og hvetja mig áfram þegar illa gengur, það er nauðsynlegt!“
Ólafur hefur mikla trú á liðinu og segir heimavöllinn afar sterkan. „Ég tel okkur eiga möguleika á því að enda í efsta sæti í riðlinum okkar. Við verðum helst að vinna alla leikina heima á móti efstu liðunum sem við töpuðum úti og byggja ofan á hvern einasta sigur sem við náum í. Heimavöllurinn skiptir máli og það er ekki auðvelt að koma til okkar í heimsókn,“ sagði Ólafur sem er sáttur við lífið á eyjunni Íle de Ré í La Rochelle.
„Þetta er rosalega rólegt umhverfi og hér þekkja allir alla. Núna er t.d. ekki mikið um ferðamenn eins og síðasta sumar, maður komst ekkert á bílnum þá. Við Katrín fórum í búðina í byrjun nóvember og það var verið að gefa eitthvað að smakka þarna, þeir sögðu eitthvað við okkur á frönsku og við svöruðum „we don´t speak french“ – þá var svarað strax til baka „aaaaa – basket.“ Þannig að það eru allar líkur á því að utan ferðamannatímans séum við eina fólkið hérna sem er ekki með franskt ríkisfang,“ sagði Ólafur léttur á manninn. „Annars erum við Katrín að fíla okkur í botn hérna… jafnvel þó það taki um 40 mínútur að fara í ræktina og svoleiðis, en það er nú bara eins og einn túr í Reykjavík frá Grindavík, ekkert mál! Ég er þakklátur að hafa hana með mér hérna, annars væri þetta mjög einmanalegt, ég tek hatt minn ofan fyrir þeim sem eru alltaf einir í atvinnumennsku.“
„Erfitt að ímynda sér þetta“
Þann 13. nóvember dundu voðaverkin yfir í París. Ólafur segir sig og unnustu sína eins og svo marga, svo vitlaus að halda að svona nokkuð gæti ekki átt sér stað. Um tveggja vikna hlé var gert í deildarkeppninni hjá Ólafi og félögum vegna hryðjuverkanna.
„Já, maður var í sjokki eftir þetta, jafnvel stressaður að fara út að borða og þess háttar,“ sagði Ólafur sem sjálfur býr í um fjögurra tíma fjarlægð frá París þar sem voðaverkin voru framkvæmd. „Þennan dag, 13. nóvember, höfðum við Katrín pantað okkur hótel í París og ætlðum að vera þar eina helgi en það var afpantað eins og skot. Við vorum bæði í sjokki og svo er maður bara svo vitlaus að halda að svona nokkuð geti aldrei gerst en það gerðist nú samt. Maður hefur búið á litla Íslandi alla tíð og er svo staddur hjá svona hryllingi, það er erfitt jafnvel að ímynda sér þetta.“
En vagga lýðræðisins er óumdeilt í Frakklandi og þó hlé hafi verið gert á deildarkeppninni í deild Ólafs þá voru hlutirnir gangsettir á ný á endanum. Liðsfélagar Ólafs misstu ekki ættingja eða vini í þessum árásum en Ólafur og Katrín fengu urmul skilaboða frá Íslandi um að halda sig fjarri höfuðstað Frakka. Ólafur varð 25 ára gamall þann 28. nóvember síðastliðinn og lætur vel af dvölinni í Frakklandi. Hann upplifir nú drauminn í atvinnumennskunni og var í og við íslenska landsliðið á stærsta landsliðsári sögunnar og vinnur hörðum höndum að því að eignast fast sæti í liðinu sem unnið hefur hug og hjörtu Evrópubúa með Öskubuskusögu sinni í kringum Evrópuævintýrið mikla.
Myndir/ úr einkasafni og af Facebook-síðu USV Ré Basket