Undir 20 ára lið kvenna leikur þessa dagana í A deild Evrópumótsins í Matosinhos í Portúgal.
Í dag tapaði liðið sínum öðrum leik á mótinu gegn sterku liði Tyrklands, 83-95. Íslenska liðið átti í fullum tygjum við það tyrkneska og var staðan jöfn í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiksins nær Tyrkland þó að slíta sig frá Íslandi. Bæði fékk tyrkneska liðið skot til að detta fyrir sig þá og þá voru þær einnig duglegar að komast á vítalínuna. Ísland náði þó áttum í fjórða leikhlutanum, en náðu þær þó ekki að gera leikinn spennandi á lokamínútunum.
Stigahæst fyrir Ísland í dag var Jana Falsdóttir með 20 stig. Henni næstar voru Rebekka Rut Steingrímsdóttir og Dzana Crnac með 16 stig hvor og þá bætti Anna María Magnúsdóttir við 10 stigum.
Íslenska liðið sýndi af sér flottar hliðar í leik dagsins gegn gífurlega sterkum andstæðing í Tyrklandi, en það munar nokkrum tugum á sætum liðanna á heimslista FIBA. Lokaleikur Íslands í riðlakeppni mótsins er á morgun gegn Lettlandi. Líkt og Ísland hefur Lettland tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu og er leikur morgundagsins því upp á 3. sæti riðilsins, en öll lið keppninnar fara í 16 liða úrslit mótsins.
Upptaka af leiknum



