spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaErfiður þriðji leikhluti Hrunamönnum að falli gegn Þór

Erfiður þriðji leikhluti Hrunamönnum að falli gegn Þór

Að kvöldi 16. febrúar fór fram leikur Hrunamanna og Þórs frá Akureyri í 17. umferð keppni 1. deildar karla. Í síðustu viku unnu Hrunamenn nágranna sína frá Selfossi í spennandi leik á meðan Þórsarar töpuðu gegn ÍR fyrir norðan. Því voru stuðningsmenn heimamanna vongóðir um að annar sigur væri í kortunum. Þeim varð ekki að þeirri ósk því Þór vann öruggan sigur 75-98.

Strax í upphitun var ljóst að ekki var allt með felldu í röðum heimaliðsins. Aleksi Liukko sem lék stórkostlega gegn Selfossi fyrir viku var hvergi að sjá. Aleksi er veikur, fékk flensu eins og sambýlingar hans Chance Hunter og Sam Burt. Chance og Sam mættu í leikinn en það mátti sjá á þeim báðum að heilsan var ekki upp á marga fiska enda hafa þeir ekki æft í vikunni. Það má segja að Chance hafi hvílt sig á meðan liðsfélagar hans léku vörn og Sam hafði ekki orku til að spila vörn fyrir tvo.

Undirbúningur Þórs fyrir leikinn hefur örugglega snúist um að verjast Aleksi svo það má teljast eðlilegt að það hafi tekið þá tíma að ná jafnvægi í leik liðsins, en það tókst þeim sannarlega þegar líða tók á leikinn. Þór gekk illa að verjast árásum Chance Hunter á körfuna, jafnvel þótt hann framkvæmdi þær hægar en hann er vanur og þegar Hrunamenn fóru í svæðisvörn hittu bakverðirnir Smári og Reynir ekki þriggja stiga skotunum ofan í körfuna. Reynir átti eftir að finna aðrir leiðir til þess að skora körfur og var góður í seinni hálfleik. Í fyrri hálfleik gekk Hrunamönnum vel að sækja varnarfráköst þótt stóra manninn hafi vantað en sóknarfráköstin voru fá. Patrik Gústafsson skilaði ágætu framlagi í leikstöðu miðherjans. Eins var gaman að sjá frábærar sendingar Eyþórs Orra Árnasonar á liðsfélagana sem oft leiddu til þess að Hrunamenn skoruðu. Hins vegar töpuðu Hrunamenn mörgum boltum klaufalega í hendur Þórsaranna og þeir voru fljótir að hengja haus og brutu stundum af sér þegar þess þurfti ekki. Kannski eru það eðlileg viðbrögð leikmanna þegar þeir standa vörn þar sem litla sem enga hjálp er að fá frá leikmanninum sem er bestur í liðinu þegar hann er fullfrískur og allt snýst um þegar liðið er í sókn.

Í byrjun seinni hálfleiks tók Þór öll völd á vellinum. Hrunamenn skorðuðu aðeins 11 stig í þriðja fjórðungi og 7 þeirra komu af vítalínunni því liðið komst snemma í bónus. Hákon Arnarsson fékk tækifæri í liði Þórs og skilaði tveimur glæsilegum þriggja stiga körfum og 3 stoðsendingum á stuttum tíma. Í lokafjórðungnum var öll spenna farin úr leiknum en það sáust þó ágæt tilþrif. Það lifnaði aðeins yfir Friðriki Heiðari og Hringi í liði Hrunamanna og Páll Nóel Hjálmarsson í liði Þórs virtist lítið hafa fyrir því að skora. Leikmaður Þórs, Orri Svavarsson, lánsmaður frá Tindastóli, fékk það hlutverk að gæta Chance Hunter. Það hlutverk réði hann illa við en hins vegar spilaði Orri vel í sókn og Veigar bróðir stóð sig líka prýðilega. Þá er vert að minnast á framlag Þórsarans Harrison Butler sem lítið bar á en skilaði þó 24 stigum og þokkalegum tölum í öðrum þáttum leiksins. Í 18. umferð leika Hrunamenn útileik gegn Þrótti og Þór fær ÍA í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndir / Brigitte Brugger

Fréttir
- Auglýsing -