spot_img
HomeFréttirErfiður fyrsti fjórðungur Þór að falli gegn Grindavík

Erfiður fyrsti fjórðungur Þór að falli gegn Grindavík

Grindavík hafði betur gegn heimakonum í Þór í Höllinni á Akureyri í kvöld í 17. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn er Grindavík í 3. sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að Þór er í 5. sætinu með 14 stig.

Segja má að Grindavík hafi haft tögl og haldir á leiknum allt frá fyrstu mínútu, en þær leiddu með 22 stigum þegar fyrsti leikhluti var á enda, 5-27. Ofan á það byggðu þær lítillega undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar liðin héldu til búningsherbergja var munurinn 24 stig, 27-51.

Leikurinn komst svo í betra jafnvægi í seinni hálfleiknum þar sem heimakonum tókst að vinna forskot Grindavíkur aðeins niður. Það var þó of lítið og of hægt sem það gerðist og var munurinn enn 19 stig fyrir lokaleikhlutann, 50-69. Í honum nær Grindavík svo enn að halda aftur af Þór þó þær nái undir lokin að koma forskotinu í 13 stig, en lokatölur voru 72-85.

Atkvæðamest heimakvenna í leiknum var Lore Devos með 22 stig, 5 fráköst og Madison Sutton bætti við 14 stigum, 12 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Fyrir gestina úr Grindavík var það Sarah Sofie Mortensen sem dró vagninn með 28 stigum og 16 fráköstum. Henni næst var Danielle Rodriguez með 18 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.

Bæði lið eiga leik næst komandi þriðjudag 30. janúar, en þá heimsækir Þór topplið Keflavíkur á meðan að Grindavík fær Stjörnuna í heimsókn í Smárann.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -