spot_img
HomeFréttirErfiður fyrri hálfleikur Íslandi að falli í úrslitaleik Norðurlandamótsins

Erfiður fyrri hálfleikur Íslandi að falli í úrslitaleik Norðurlandamótsins

Undir 18 ára drengjalið Íslands tapaði lokaleik sínum í dag gegn heimamönnum í Finnlandi á Norðurlandamótinu 2022, 100-62. Ísland hafnaði því í þriðja sæti mótsins þetta árið á meðan að Danmörk var í öðru og Finnland því fyrsta.

Lokastaða NM 2022

Fyrir leik dagsins hafði Finnland ekki tapað leik á mótinu og sigur í honum nóg fyrir þá til þess að tryggja sér titilinn. Þrátt fyrir að Ísland hafi tapað einum leik á móti Svíþjóð, þá vegna innbyrðisviðureignar, hefði sigur gegn Finnlandi alltaf tryggt Íslandi titilinn.

Gangur leiks

Íslenska liðið fór vægast sagt illa af stað í leiknum. Gengur lítið sem ekkert upp hjá þeim sóknarlega og líklega var það enn verra á varnarhelmingi vallarins. Nýting Finnlands á þessum upphafsmínútum einkar góð, tæp 50% fyrir utan þriggja stiga línuna og 60% úr öllum skotum. 19 stiga munur eftir fyrsta leikhluta, 33-14. Undir lok fyrri hálfleiksins halda yfirburðir Finnlands svo áfram, bæta þeir enn við forystu sína og eru 31 atigi yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 56-25.

Ísland gerir ágætlega að halda fengnum hlut í upphafi seinni hálfleiksins. Ná þó lítið sem ekkert að vinna á forystu heimamanna, sem eru enn 32 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 75-43. Leikurinn var á þessum tímapunkti nánast úti, en undir lokin sigla heimamenn mjög svo öruggum sigur og Norðurlandameistaratitil í höfn, 100-62.

Atkvæðamestir

Tómas Valur Þrastarson var bestur í íslenska liðinu í dag með 16 stig og 3 fráköst. Honum næstur var Daníel Ágúst Halldórsson með 12 stig og 6 fráköst.

Kjarninn

Finnar virtust betri á öllum sviðum leiksins í dag. Boltinn gekk betur hjá þeim, þeir skutu honum betur og varnarlega voru þeir betur skipulagðir heldur en íslenska liðið. Ekkert alslæm niðurstaða fyrir íslenska liðið á mótinu í heild, þrír sigrar og tvö töp, en þeir naga sig væntanlega í handabakið fyrir að hafa ekki tekið leikinn gegn Svíþjóð í gær. Því með sigri þar hefði Ísland endað í öðru sætinu.

Við verðlaunaafhendingu var einn leikmaður Íslands valinn í úrvalslið mótsins, Róbert Sean Birmingham, en kosið er í það lið af þjálfurum allra liða mótsins. Í nokkuð jöfnu liði Íslands var Róbert Sean jafn bestur, með 14 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik á mótinu.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -