9:40
{mosimage}
Sigurður Elvar Þórólfsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar fína grein í dag í dálkinn Á vellinum, þar sem blaðamenn Morgunblaðsins skrifa það sem þeim liggur á hjarta hverju sinni.
Hér er greinin í heild.
ÍSLENSKA landsliðið í körfuknattleik hélt utan í dag áleiðis til Finnlands þar sem leikið verður gegn heimamönnum í riðlakeppni Evrópumótsins. Liðið er vel mannað og getur á góðum degi náð fínum árangri gegn sterkum þjóðum. Íslenska liðið á ekki lengur möguleika á að komast upp úr B-deild Evrópumótsins og aðeins verður leikið fyrir íslenska þjóðarstoltið í næstu leikjum. Því er ekki að leyna að í liðið vantar mjög sterka leikmenn sem af ýmsum ástæðum gáfu ekki kost á sér í þetta verkefni. Ýmis „praktísk“ vandamál hafa komið upp í aðdraganda landsleikjanna og sum hver virðast erfið viðureignar. Vandamálið í hnotskurn er skortur á fjármagni hjá litlu sérsambandi sem vill gera vel við sína leikmenn á öllum aldri.
Fyrr í sumar sagði Morgunblaðið frá því að tveir landsliðsmenn sem leika með Snæfelli frá Stykkishólmi gætu ekki lagt í þann kostnað sem fylgir því að fórna sér fyrir landsliðið á æfingum liðsins yfir sumartímann. Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson sáu ekki aðra leið en að gefa landsliðið upp á bátinn – þar sem KKÍ hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að leysa slík vandamál. Og skortir ekki vilja forráðamanna KKÍ til þess að finna lausnina. Fjármagnið er hinsvegar ekki til staðar. Ég sé ekki aðra lausn en að ríkisvaldið geti leyst slíkan vanda.
Missir Jakob af lestinni?
Nokkrir leikmenn landsliðsins sem vakið hafa áhuga erlendra liða eru einnig í erfiðri stöðu. Væntanlegir vinnuveitendur þeirra í atvinnudeildum í Evrópu hafa flestir áhuga á að fá þessa leikmenn í sínar raðir til reynslu – á sama tíma og landsliðsverkefnin eru í hámarki að hausti. Jakob Sigurðarson er í slíkri stöðu en forráðamenn ungverska liðsins Kecskemeti vildu fá hann nú þegar til þess að sjá hann á æfingum og í keppni áður en skrifað yrði undir samning. Jakob tók áhættuna og fór með landsliðinu til Finnlands. Kannski verður það til þess að hann missir af lestinni til Ungverjalands. Hörður Axel Vilhjálmsson úr Fjölni fékk óvænt boð um að æfa með einu sterkasta félagsliði í Evrópu, Treviso Benetton frá Ítalíu, og fyrir ungan leikmann var erfitt að taka þá ákvörðun að yfirgefa landsliðið og halda til Ítalíu með skömmum fyrirvara.
Einn sterkasti leikmaður íslenska liðsins, Jón Arnór Stefánsson, valdi að æfa með Roma á Ítalíu og ná öllu undirbúningstímabilinu með liðinu í stað þess að fara í landsliðsverkefnin. Það er skiljanlegt að Jón Arnór vilji verja stöðu sína í harðri samkeppni hjá sterku liði í ítölsku úrvalsdeildinni þar sem möguleikar landsliðsins á að komast upp í Adeild eru úr sögunni.
Að leika fyrir íslenska landsliðið er og verður æðsti draumur ungra leikmanna í öllum íþróttum. Landsliðsmenn í körfuknattleik virðast vera í mjög sérstakri stöðu hér á landi. Ekkert annað boltalandslið æfir eins mikið yfir sumartímann enda eru verkefni landsliðsins bundinn við ágúst – september ár hvert. Handknattleikslandsliðið æfir ekki yfir sumartímann hér á landi enda eru flestir leikmanna liðsins erlendis sem og þjálfarinn. Verkefni landsliðsins eru einnig á allt öðrum tímum en í körfuknattleiknum.
Ég velti því fyrir mér hvort sú staða sem KKÍ er í varðandi A-landslið karla eigi enn eftir að versna á komandi árum. Landsleikirnir munu verða á sama tíma að ári. Leikmenn liðsins verða í sömu
stöðu að ári, í leit að félögum sem vilja semja, og aðrir sem eru samningsbundnir telja hag sínum betur borgið með því að æfa með sínum félagsliðum á meðan landsliðsverkefnin standa yfir.
Mynd: Morgunblaðið



