Haukar og Snæfell mætast í Domino´s deild karla í kvöld kl. 20:00 en það er síðari viðureign tvíhöfða dagsins þar sem kvennalið félaganna mætast kl. 18:00 í Schenkerhöllinni svo það verður nóg um að vera í Hafnarfirði í kvöld.
Þegar rýnt er í deildarviðureignir Hauka og Snæfells í Hafnarfirði kemur nokkuð athyglisverð staðreynd í ljós en hún er sú að Haukar hafa ekki unnið Snæfell í úrvalsdeild á sínum heimavelli síðan árið 2003! Er tíu ára bið Hauka á enda? Reyndar mættust liðin í úrslitakeppninni 2011 og þá unnu Haukar sinn heimaleik en eins og viðkvæðið segir, það er allt önnur keppni.
Snæfell hefur s.s. unnið sex deildarleiki í röð í Hafnarfirði en eru að sleikja sárin eftir rassskellingu gegn KR í síðasta leik, að sama skapi eru Haukar nýkomnir úr frægðarför í Hertz-hellin þar sem þeir kjöldrógu ÍR.



