Eftir að Páll Axel Vilbergsson skoraði 54 stig núna á dögunum og jafnaði þar með met Vals Ingimundarson hefur mikið verið fjallað um afrekið sem það svo sannarlega er. En eru 54 stig metið hjá Íslending í einum og sama leiknum ?
Í gærkvöldi á leik UMFN og ÍR varð blaðamaður vitni af umræðum á milli tveggja einstaklinga sem hafa verið lengi í boltanum. Þeir Kristbjörn Albertsson, fyrrum dómari úr Njarðvík og Gunnar Þorvarðason sem var leikmaður hjá Njarðvík rýndu í gamla tíma og voru þeir nokkuð viss um það að Þórir nokkur Magnússon sem var leikmaður KFR (síðar Valur) hafi í einum leiknum skorað 57 stig. Leikur þessi var í Laugardalshöllinni en minnið sem gamalt er orðið virtist ekki ná lengra en það.
"Við kölluðum hann "Rocketman" hann var svo snöggur. Hann bjó einnig yfir gríðarlegri tækni og ég man eftir því að einu sinni eftir því þegar hann var í lay up-i og komin aðeins of langt undir körfuna þá hreinlega vippaði hann knettinum bara yfir spjaldið, svona líkt og Kobe var að gera hérna um daginn. Á þessum tíma þá æfði ég með Val tvisvar í viku en spilaði með Njarðvík, þannig var bara tíðarandinn. En á fyrstu æfingu eftir þetta atvik og spurði hann hvernig í ósköpunum hann hafði gert þetta. Og hann sagðist ekki almennilega vita það en fór að því sögðu að körfunni og endurtók skotið" sagði Gunnar Þorvarðason í spjalli við Karfan.is
Þannig að nú er spurning hvort KKÍ geti staðfest þetta met hans Þóris, nú eða þá hvort aðrir gárungar muni jafnvel betur eftir þessum leik ? Endilega skjótið pósti á [email protected]
Mynd af KKÍ.is: Þórir Magnússon með skot að körfu KR en til varnar er Kolbeinn Pálsson



