Keflavík leiðir 2-0 gegn grönnum sínum úr Njarðvík í úrslitarimmu Iceland Express deildar kvenna eftir 64-67 sigur í viðureign liðanna í Ljónagryfjunni í kvöld. Keflvíkingar þvinguðu Njarðvíkinga út í of mörg mistök sem á endanum urðu grænum að bráð. Reynsla Keflavíkur á stóra sviðinu sýndi sig í hæfni þeirra til að halda Njarðvík fyrir aftan sig allan leikinn þó grænar væru aldrei langt undan. Bryndís Guðmundsdóttir fór fyrir Keflavíkurliðinu í kvöld með 24 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar en í liði Njarðvíkinga var Shayla Fields með 25 stig og 5 stoðsendingar.
Fyrir leik voru fyrstu Íslandsmeistarar Njarðvíkinga heiðraðir en klúbburinn fagnaði sínum fyrsta titli í karlaflokki árið 1981 og á því 30 ára afmæli með sínum fyrsta stórtitli þetta árið. Garpar á borð við Gunnar Þorvarðarson, Val Ingimundarson og fleiri voru mættir og heilsuðu upp á keppendur fyrir leik.
Jón Halldór Eðvaldsson tók leikhlé fyrir Keflavík eftir rúmlega tveggja mínútna leik þegar Njarðvíkingar leiddu 6-2. Grænar voru sprækari í upphafi leiks á meðan Bryndís Guðmundsdóttir virtist ein Keflavíkurkvenna mætt í hús hjá gestunum. Varnarleikurinn var allsráðandi á fyrstu mínútunum á meðan liðin þreifuðu fyrir sér en Shayla Fields sleit Njarðvíkinga frá með þrist, 15-8.
Keflavík hóf að svæðispressa allan völl eftir skoraðar körfur en slíkur munaður sást ekki í heilar fjórar mínútur á seinni sprettum fyrsta leikhluta og því komust Njarðvíkingar í 22-10 eftir körfu frá Juliu Demirer sem fékk víti að auki. 40 sekúndur voru eftir af leikhlutanum þegar Marina Caran svo loks kom niður þrist fyrir Keflavík og gestirnir tóku á rás fyrir vikið, gerðu sex síðustu stig leikhlutans, 22-16, og komu grimmar inn í annan leikhluta.
Í öðrum leikhluta sýndu Keflvíkingar sparihliðarnar, pressan fór að gefa af sér og Bryndís hélt áfram að hrella Njarðvíkinga, skoraði nánast þegar henni hentaði og Njarðvíkingar fengu ekki rönd við reist. Ingibjörg Jakobsdóttir setti tvo þrista með skömmu millibili, Birna Valgarðs henti í púkkið sem og Marina Caran og staðan snögglega 28-34 Keflavík í vil og opnðu gestirnir því annan hluta með 6-18 bombu og flugeldasýningunni var hvergi nærri lokið.
Njarðvíkingar hreinlega réttu varnarmönnum Keflavíkur boltann í öðrum leikhluta er þær mættu pressunni og Keflvíkingar refsuðu grimmilega, keyrðu vel í bakið á Njarðvíkingum og uppskáru auðveldar körfur.
Skemmtilegt atvik átti sér stað þegar ein mínúta var til hálfleiks, Lisa Kircic hélt greinilega að ein sekúnda væri eftir þegar hún bauð upp á skot frá miðju. Boltinn fór í hringinn og Lisa hélt að leiktíminn væri úti, þetta uppskar góðan hlátur á Keflavíkurbekknum enda höfðu gestirnir ærna ástæðu til að brosa þar sem þær leiddu 36-49 í hálfleik og unnu annan leikhluta 33-14!
Njarðvíkingar lögðu allt í vörnina í upphafi þriðja leikhluta og héldu Keflavík án stiga fyrstu fimm mínúturnar í síðari hálfleik, heimakonur náðu þó aðeins að skora fimm stig á þessum kafla og staðan því 41-49. Loks brast þó stíflan hjá Keflavík þegar Ingibjörg Jakobsdóttir setti þrist og breytti stöðunni í 41-52. Dita Liepkalne og Shayla Fields tóku þá Njarðvíkurrispu og grænar minnkuðu muninn í 49-52. Marina Caran var að finna stóru skotin fyrir Keflavík í kvöld og þegar 40 sekúndur voru eftir af þriðja setti hún þrist, staðan 52-61 fyrir gestina sem leiddu svo 55-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Njarðvíkingar gerðu í kvöld einfaldlega of mikið af mistökum til þess að geta komist að nýju upp að hlið Keflavíkur. Keflavík náði upp átta stiga forystu, 59-67 snemma í fjórða leikhluta og varnir liðanna voru þéttar, lítið skorað og spennustigið hátt.
Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka tóku Njarðvíkingar leikhlé og voru of lengi á bekknum að ræða málin svo Einar Þór Skarphéðinsson dæmdi annað leikhlé á Njarðvík fyrir seinaganginn og því áttu heimakonur ekki fleiri leikhlé það sem eftir lifði leiks.
Ólöf Helga Pálsdóttir klóraði í bakkann fyrir Njarðvík, braut sér leið upp að Keflavíkurkörfunni og minnkaði muninn í 62-67. Skömmu síðar stal Shayla Fields boltanum og skoraði, staðan 64-67 þegar 48 sekúndur voru eftir. Keflavík náði ekki að skora í síðustu sókn og Njarðvíkingar héldu af stað upp völlinn og 25 sekúndur eftir.
Löng sókn Njarðvíkurkvenna endaði úti í hægra horni þegar dæmt var skref á heimakonur og sex sekúndur eftir af leiknum, björninn var unninn þar sem Njarðvík var aðeins komið með eina villu í leikhlutanum og öll von um að koma Keflavík á vítalínuna álíka mikil og að koma úlfalda í gegnum nálarauga. Keflavík kláraði því dæmið 64-67 í leik sem þær leiddu frá öðrum leikhluta til þess síðasta.
Þriðja viðureign liðanna verður í Toyota-höllinni á föstudag þar sem Keflavík getur tryggt sér titilinn með sigri, Njarðvíkursigur þýðir fjórða viðureign í Ljónagryfjunni.
Byrjunarliðin:
Njarðvík: Shayla Fields, Ína María Einarsdóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir, Dita Liepkalne og Julia Demirer.
Keflavík: Ingibjörg Jakobsdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir, Birna Valgarðsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Lisa Kircic.
Heildarskor:
Njarðvík : Shayla Fields 25/4 fráköst/5 stoðsendingar, Julia Demirer 15/10 fráköst, Dita Liepkalne 14/8 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 7/6 fráköst, Anna María Ævarsdóttir 2, Ína María Einarsdóttir 1, Auður R. Jónsdóttir 0, Árnína Lena Rúnarsdóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Eyrún Líf Sigurðardóttir 0, Jóna Guðleif Ragnarsdóttir 0.
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 24/7 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 12, Marina Caran 11/7 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 8/6 fráköst, Lisa Karcic 6/10 fráköst/5 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 4/8 fráköst, Hrund Jóhannsdóttir 2, Hrönn Þorgrímsdóttir 0, Árný Sif Kristínardóttir 0, Eva Rós Guðmundsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.
Dómarar: Björgvin Rúnarsson og Einar Þór Skarphéðinsson
Eftirlitsdómari: Guðni Eiríkur Guðmundsson
Umfjöllun og myndir/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]