Pálína María Gunnlaugsdóttir leikur ekki með Keflavík á næstu leiktíð en hún staðfesti áðan í samtali við Karfan.is að hún væri ekki að hætta að spila.
„Nei ég ætla ekki að hætta,“ sagði Pálína sem hefur verið í viðræðum við önnur lið. „Ég er ekkert að flýta mér, er bara að skoða mín mál og framtiðina svo það kemur bara í ljós á næstu dögum eða vikum hvernig þetta verður,“ sagði Pálína og nokkuð ljóst að feitasti bitinn á leikmannamarkaðnum er laus!
„Það var æðislegt að spila fyrir Keflavík, það var öðruvísi en að spila t.d. fyrir Hauka eins og ég gerði á sínum tíma. Bærinn snýst um körfubolta og það er eitthvað sem maður upplifir ekki í Reykjavíkurliðunum. Ég er þakklát fyrir þennan tíma og að fá að upplifa þetta með þeim og vona bara að viðskilnaðurinn við félagið sé í góðu. Eins að ef mig langi til að spila aftur með Keflavík í framtíðinni að þá sé ekkert sem standi í vegi fyrir því,“ sagði Pálína í samtali við Karfan.is.
Pálína var á tímabilinu valin besti leikmaðurinn og var í broddi Keflavíkurliðsins sem varð deildar-, bikar-, og Íslandsmeistari þar sem Pálína var með 16,3 stig, 5,6 fráköst og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.