spot_img
HomeFréttirEr breytinga að vænta á reglugerð aganefndar?

Er breytinga að vænta á reglugerð aganefndar?

Svo varð á að kvöldið eftir að ég birti síðasta pistil minn um þá stöðu sem aga- og úrskurðarnefnd KKÍ hefur komið sér í með undanförnum úrskurðum, að enn eitt atvikið átti sér stað sem vitað var að myndi rata inn á borð nefndarinnar. Leikmaður Stjörnunnar gerðist sekur um óíþróttamannslega villu seint í leik Stjörnunnar og Skallagríms í Borgarnesi þann 23. janúar sl. Brot sem af mörgum var talið á mörkum þess að vera líkamsárás.
 
Margir furðuðu sig einnig á því að umræddum leikmanni hafi ekki verið hent út úr húsi strax eftir þessi samskipti þeirra, en líkt og í tilviki leikmanns Vals í Dominosdeild kvenna í byrjun janúar, var dómarinn (að mínu mati) staðsettur þannig að erfitt var að sjá alvarleika brotsins og dómurinn því skiljanlegur miðað við það. Að hans eigin sögn hefði hann dæmt á annan veg hefði hann fengið annað sjónarhorn.
 
Körfuknattleiksdeild Skallagríms kærði leikmanninn sjálfan og brot hans til aga- og úrskurðarnefndar. Í ljósi þeirrar umræðu sem fyrri mál nefndarinnar hafa fengið var ljóst að setið yrði um niðurstöðu þessa máls. Niðurstaðan: leikmaður Stjörnunnar dæmdur í tveggja leikja bann.
 
Að mínu viti var það það löngu ljóst að allt stefndi í þessa niðurstöðu, bæði vegna þrýstings sem hafði byggst upp auk þess að þörf var á að vekja athygli á þeirri mótsögn sem felst í ákveðnum greinum reglugerðar nefndarinnar.
 
Niðurstaðan hefur þó – því miður – gefið ákveðið skotleyfi á nefndina, bæði vegna ósamræmis og mögulega að litarhaft aðila hafi áhrif. Slíkt er með öllu ósmekklegt og tel ég mig geta fullyrt að slíkt ráði ekki för í störfum nefndarinnar. Eitt verður þó að hafa í huga að málin gefa óneitanlega slíkum þankagangi byr undir báða vængi – því miður. Brotaþoli í máli KFÍ gegn leikmanni Snæfells á síðasta ári var dökkur á hörund og ekki tókst nefndinni með fullri vissu eftir “ítrekaða skoðun” að úrskurða gegn ákærða í því máli. Vafinn er hins vegar enginn og úrskurðurinn afdráttarlaus í máli leikmanns Stjörnunnar, sem einnig er dökkur á hörund. Hreinar tilviljanir eflaust en þegar málin eru viðkvæm og mikið í húfi skiptir öllu að allir úrskurði séu hafnir yfir allan vafa.
 
Fyrrnefnd mál eru að mörgu leyti lík, fyrir utan þá þætti sem nefndir voru hér að ofan. Í báðum tilvikum kærir lið brotaþola málið til nefndarinnar og hún úrskurðar á grundvelli myndbandsupptöku. 
 
Það eina sem er hins vegar ólíkt með þessum málum er að meint brot fór framhjá dómara í því fyrra en ekki í því síðara.
 
Það var þó ekki uppi á teningnum í byrjun janúar í máli leikmanns kvennaliðs Vals. Það gerðist beint fyrir framan dómara leiksins og dæmt – þó hugsanlega ranglega dæmt – líkt og í máli leikmanns Stjörnunnar. Dómaranefndin aftur á móti skaut málinu til aga- og úrskurðarnefndar til umfjöllunar sem vildi engu breyta á grundvelli 4. mgr 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál.
 
Ef skilja má fordæmi nefndarinnar rétt þá er hún ekki bundin af ákvörðun dómara skv. áðurnefndri 4. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar ef aðilar máls kæra það. Berist hins vegar málið á borð nefndarinnar fyrir tilstuðlan dómaranefndar trompar 4. mgr. allt annað – af fordæmi fyrri úrskurða. Hrópandi þversögn ef markmið heimildar dómaranefndarinnar er að tryggja eðlilegt eftirlit nefndarinnar með dómurum sínum og tryggja einnig að dómar sem dómaranefndin telur ranga geti verið leiðréttir að einhverju leyti af aga- og úrskurðarnefnd.
 
Mál leikmanns kvennaliðs Vals minnir um margt á atvik sem átti sér stað í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í apríl 2012. Þar verður leikmaður Stjörnunnar fyrir olnbogaskoti frá leikmanni Keflavíkur og dæmd er óíþróttamannsleg villa. Stjarnan kærir brotið til aga- og úrskurðarnefndar þar sem félagið taldi brotið “gróft og afleiðingarnar umtalsverðar”. Í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að töluvert þurfi “að koma til svo nefndin fari gegn þeirri meginreglu að hún sé bundin af ákvörðunum dómara leiksins og á þessi heimild einkum við ef dómari hefur ekki tekið eftir broti eða dómur verið í verulegu ósamræmi við sjáft brotið”.
 
Úrskurður nefndarinnar í þessu máli var að dómi var ekki breytt og hinum kæra ekki veit viðurlög. Eftirfarandi kom fram í rökstuðningi nefndarinnar: “Þrátt fyrir að afleiðingar brotsins séu alvarlegar þá getur það ekki eitt og sér leitt til agaviðurlaga enda um að ræða kappleik þar sem alvanalegt er að leikmenn verði fyrir hnjaski eftir hvers konar samstuð eða atgang.”
 
Ofangreint er að mati undirritaðs hættulegur boðskapur og vonandi ekki stefna nefndarinnar til frambúðar. Þessi leikur var jú í úrslitakeppni og eykst harkan oft í þeim leikjum en bráðnauðsynlegt er engu að síður að gæta samræmis og tryggja það, sama hver á í hlut. 
 
Nefndin fór eftir þessum leiðavísi í tilviki leikmanns kvennaliðs Vals en ekki í nýbirtum úrskurði nefndarinnar í máli Stjörnunnar og Skallagríms.
 
Merki um nýja stefnu og aðrar áherslur úrskurðum mála er varða agabrot? Það er óskandi, því ég tek heils hugar undir orð Teits Örlygssonar, þjálfara Stjörnunnar, að brotið verðskuldar þá refsingu sem það fékk, en ósamræmið gefur tilefni til tortryggni.
 
Í íþróttafréttum RÚV í gærkvöldi var umfjöllun um þetta efni og viðtal við Hannes S. Jónsson, formann KKÍ. Af þeim svörum sem hann gaf í því viðtali má vænta viðbragða frá sambandinu fljótlega og vonandi að ósamræmið í 6. gr. reglugerðarinnar verði tekið til endurskoðunar. 
 
[email protected], ritstjóri Ruslsins
Fréttir
- Auglýsing -