spot_img
HomeFréttirEÖ: Tími fyrir efnilegt lið Hauka að fara á næsta stig

EÖ: Tími fyrir efnilegt lið Hauka að fara á næsta stig

Járnmaðurinn Eiríkur Önundarson hefur sitt að segja fyrir 8-liða úrslitin. Karfan.is fékk einn dáðasta son ÍR til þess að rýna í málin og segir Eiríkur tímabært fyrir efnilegt lið Hauka að fara upp á næsta stig. 
 
KR-UMFG: 3:1
Ég held að allir geti kvittað upp á að þegar KR liðið er að spila vel þá standast þeim fáir snúning. Þó er það áhyggjuefni fyrir þá ef Pavel er ekki heill. Það sást glöggt í bikarúrslitunum.
Grindvíkingar hafa þó verið að spila betur eftir því sem liðið hefur á tímabilið og verið flottir eftir áramót. Gamla brýnið, Ómar Sævarsson, verður að vera í stuði enda hefur hann afar smitandi stemmningsáhrif á liðið auk þess að rífa niður fráköst ef þau eru til staðar. Þeir taka þó bara einn heimaleik en komast ekki lengra.
 
 
Njarðvík-Stjarnan: 2:3
Þetta einvígi verður gríðarlega jafnt. Njarðvíkingar tefla fram besta leikmanni seinni hluta mótsins ásamt því að innan raða liðsins er Logi Gunnars, einn besti leikmaður landsins til margra ára. Eins og alltaf í úrslitakeppni skiptir máli að lykilmenn stígi upp. Justin Shouse hefur aftur og aftur í gegnum árin stigið upp og leitt sína menn til sigurs í stórum leikjum. Ég held að hans frammistaða muni ríða baggamuninum í þessu einvígi en tæpt verður það. Ég gæti trúað að stemmningin verði svakaleg í þessum leikjum. Ljónagryfjan ber nafn með rentu og svo er Silfurskeiðin úr Garðabænum.
 
 
Tindastóll-Þór: 3:2
Þetta verður hitt fimm leikja einvígið. Tindastóll, sem óhætt er að kalla spútniklið deildarinnar í ár, skríður í undanúrslitin. Hjá liðinu spila erlendu leikmennirnir stóra rullu en Pétur Rúnar og Ingvi Rafn hafa skilað afar mikilvægu hlutverki. Þeir hafa spilað mjög vel í deildinni í vetur en úrslitakeppnin er allt annar handleggur. Þar er pressan meiri og reynsluminni leikmenn eiga oft og tíðum erfitt með að beisla spennuna. Ég held að þeim takist það í nógu mörgum leikjum, ásamt því að reynsluboltarnir í liðinu skila sínu. Þórsarar hafa verið mjög sveiflukenndir milli leikja. Þeir þekkja það þó að vera í úrslitakeppni og sú reynsla nýtist þeim vel. Ég held að Nemanja verði frábær í þessu einvígi. Govins er öflugur leikmaður en hefur ekki verið að spila eins vel og hann gerði þegar hann var hér um árið.
 
 
Haukar-Keflavík: 3-1
Nú er tími til kominn fyrir efnilegt lið Hauka að fara á næsta stig. Þeir hafa ekki átt góðu gengi að fagna í úrsiitakeppninni og hafa ekki farið í gegnum fyrstu umferð í þónokkurn tíma. Þetta árið gera þeir það og fylgja eftir flottu tímabili. Emil og Kári munu spila vel og verður það lykillinn að sigrinum. Keflvíkingar hafa þó verið að spila vel undanfarið og eru eins og alltaf til alls líklegir í úrslitakeppninni. Siggi Ingimundar hefur marga fjöruna sopið í þessum efnum en spurningin er hvort liðið sé nógu sterkt. Að mínu viti verða Haukarnir frískari og klára þetta í fjórum leikjum.
 
Leikir kvöldsins
19-03-2015 19:15 Úrvalsdeild karla KR   Grindavík DHL-höllin
19-03-2015 19:15 Úrvalsdeild karla Njarðvík   Stjarnan Njarðvík
 
Fréttir
- Auglýsing -