Þetta sumar ætlar að verða liði Los Angeles Clippers afdrifaríkt. Fyrr í vikunni skiptu þeir besta leikmanni sínum, leikguðinum Chris Paul, til Houston Rockets fyrir, mjög marga, minni spámenn. Nýjustu fréttir eru síðan þær að skotbakvörður liðs þeirra J.J. Redick hafi ákveðið að semja við ungt, en efnilegt lið Philadelphia 76ers. Samningur Redick við liðið er sagður vera til eins árs og hljóða upp á 23 miljónir dollara.
Ljóst er að Redick er kærkomin viðbót við annars mjög ungan hóp 76ers, en hjá þeim mun hann fá að leika með 1. valrétti nýliðavals síðastliðinna tveggja ára í þeim Ben Simmons og Markelle Fultz, ásamt fleiri ungum og efnilegum leikmönnum líkt og Joel Embiid og Dario Saric. Redick, sem er 32 ára gamall, spilaði eitt sitt besta tímabil á ferlinum fyrir Clippers í fyrra. Í 78 leikjum skoraði hann 15 stig að meðaltali í leik þar sem að hann skaut yfir 41% frá þriggja stiga línunni.
Trust the process
— JJ Redick (@JJRedick) July 1, 2017