Í kvöld áttust við í Ljónagryfjunni Njarðvík og Stjarnan í leik númer fjögur í seríunni um sæti í undanúrslitum Domino´s deildarinnar. Njarðvík með 2-1 forystu í einvíginu fyrir leikinn sem hefur reynst hin besta skemmtun. Útivallasigrar hafa einkennt leiki liðanna sem og sterkur varnarleikur og spurning hvort að Stjörnumenn næðu að knýja fram oddaleik. Logi Gunnarsson var mættur í búning í kvöld í liði heimamanna en hann handarbrotnaði fyrir 3 vikum. Troðfull Ljónagryfjan í kvöld og stuðningsmenn liðanna í miklu stuði fyrir leikinn.
1. leikhluti byrjaði frekar rólega þar sem bæði lið virtust vera frekar varkár. Atkinson var sterkur í liði heimamanna og gerði 5 fyrstu stig þeirra og Oddur Rúnar fylgdi honum eftir með næstu 5 stig þeirra grænklæddu. Varnir liðanna voru öflugar og ljóst að mikið var undir því baráttan var mikil og spennustigið hátt. Hraðinn jókst svo þegar á leið leikhlutann og var Justin Shouse heitur fyrir gestina en hann setti niður 10 stig í leikhlutanum. Stjörnumenn voru ýfið sterkari í leikhlutanum og svo fór að þeir leiddu að honum loknum 19-23 en bæði lið greinilega tilbúin að selja sig dýrt í þessum leik.
2. leikhluti byrjaði á 4. stigum frá Ólafi Helga fyrir Njarðvík en svo kom 8-0 kafli hjá gestunum sem komu sér í 23-31 með flottri spilamennsku. Jeremy Atkinson, sem var í sérflokki fyrir heimamenn í stigaskori, og Logi Gunnars voru ekki á því að hleypa Stjörnumönnum of langt frá sér og gerðu þeir næstu 5 stig. Þar við sat hinsvegar því Stjörnumenn hertu tökin í vörninni og virtist engin leið fyrir heimamenn að körfunni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Á meðan gekk allt upp sóknarlega hjá þeim bláklæddu og komust þeir mest í 10 stiga forystu 30-40 þegar um mínúta var eftir að leikhlutanum. Lokaorðin í honum átti þó Haukur Helgi sem sem skoraði síðustu stig leikhlutans og lagaði stöðuna í 33-40 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.
Atkvæðamestir hjá Njarðvík: Jeremy Atkinson 13 stig/ 6 fráköst/ 3 stolnir, Oddur Rúnar 5 og Haukur Helgi 5 stig.
Atkvæðamestir hjá Stjörnunni: Justin Shouse 10 stig, Sæmundur Valdimars. 7 stig/ 3 fráköst og Tómas Tómasar 7 stig.
3. leikhluti var stál í stál en mikil barátta var í leiknum og hiti í mönnum. Al´lonzo Coleman setti fyrstu körfu leikhlutans en hann var búin að hafa hægt um sig í leiknum til þessa. Liðin skiptust á að skora og var hraðinn töluverður í leiknum. Marvin Vald. stimplaði sig inn í leikinn með tvemur góðum 3. stiga körfum. Tilþrif leikhlutans falla þó í skaut erlendu leikmanna liðanna en þeir Al´lonzo Coleman og Jeremy Atkinson tóku sig til og blokkuðu hvorn annan sitt hvoru megin á vellinum. Stjörnumenn héldu þó forskoti sínu út leikhlutan sem endaði 56-53.
4. leikhluti byrjaði á flottri 3. stiga körfu frá Loga Gunnars sem kveikti smá neista hjá heimamönnum. Tómas Heiðar Tómasson var þó ekki lengi að svara fyrir Stjörnuna en hann var klárlega maður leiksins í kvöld. Hann spilaði fanta góða vörn allan leikinn og lét leikmenn Njarðvíkur hafa virkilega mikið fyrir hlutunum ásamt því að salla niður 20 stigum. Leikurinn spilaðist upp í hendurnar á Stjörnunni sem voru með gott forskot og spiluðu skynsaman sóknarleik þar sem tíminn vann með þeim. Á móti voru Njarðvíkingar að leita af þessu eina skoti sem oft kveikir neista í liðum en því miður fyrir þá var lítið að rata rétta leið. Þegar um 5 mín voru eftir setti Al´lonzo Coleman niður 3 stiga skot sem kom gestunum í 10 stiga forskot 63-73 og þann mun létu þeir aldrei af hendi. Svo fór að Stjarnan vann flottan útisigur 68-83 og þurfa liðin því að mætast í oddaleik í Ásgarði Garðabæ á fimmtudaginn kemur.
Atkvæðamestir hjá Njarðvík: Oddur Rúnar 18 stig/ 3 fráköst, Jeremy Atkinson 17 stig/ 8 fráköst/ 5 stolnir, Haukur Helgi 13 stig /7 fráköst/ 5 stoðsendingar.
Atkvæðamestir Stjörnunni: Tómas H. Tómasson 20 stig/ 5 fráköst/ 4 stoðsendingar, Justin Shouse 17 stig/ 7 stoðsendingar, Al´lonzo Coleman 15 stig/ 8 fráköst, Sæmundur Valdimars 11 stig/ 4 fráköst.
Myndasafn / Skúli Sigurðsson
Umfjöllun / Árni Þór Ármannsson



