spot_img
HomeFréttirEnn ein spennurimman í Síkinu: Stólarnir í 8-liða úrslit

Enn ein spennurimman í Síkinu: Stólarnir í 8-liða úrslit

Annar spennuleikurinn á fjórum dögum var í Síkinu í gærkvöld þegar Þór Þorlákshöfn heimsótti Tindastól í 16 liða úrslitum Powerade bikarsins. Eftir að gestirnir höfðu frumkvæðið fram í miðjan fjórða leikhluta komu heimamenn sterkir inn á lokamínútum leiksins og höfðu að endingu tveggja stiga sigur þar sem Þór átti síðasta skotið fyrir sigri, en það geigaði um leið og tíminn rann út. Lokatölur 78 – 76 og Stólarnir komnir í 8 liða úrslitin.
Heimamenn byrjuðu með erlendu leikmennina þrjá, Allen, Miller og Luttman auk Rikka og Helga Rafns. Þór hóf leik með þá Govens, Hairston, Guðmund, Darra og Janev.
Það gekk rólega í stigaskorun í upphafi og eftir 5 mínútna leik var staðan 6 – 5. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta var staðan 15 – 14. Þá komu 6 stig í röð frá gestunum sem leiddu 15 – 20 að honum loknum.
 
Stólarnir byrjuðu annan leikhluta af krafti, skoruðu fyrstu 9 stig hans og komust yfir 24 – 20. Þá settu þeir Govens, Janev og Guðmundur hvern sinn þristinn fyrir Þór og þeir sigu framúr og höfðu náð 6 stiga forskoti þegar flautað var til hálfleiks. Þeir Maurice Miller og Curtis Allen voru hvor með 9 stig í fyrri hálfleik fyrir heimamenn og Allen að auki með 9 fráköst. Hjá gestunum í Þór var Govens kominn með 14 stig og Guðmundur Jónsson með 12.
 
Tindastóll reyndi að sækja að Þór í þriðja leikhluta, en Matthew Hairston var heitur fyrir gestina og setti niður þrjá þrista í leikhlutanum. Eftir að hafa náð muninum niður í þrjú stig í stöðunni 47 – 50 juku Þórsarar aftur muninn og voru með 8 stiga forskot eftir þrjá leikhluta, staðan 51 – 59.
 
Svavar Birgis opnaði síðasta leikhlutann með þristi og síðan fylgdu fjögur víti frá Stólunum og útlitið orðið bjartara. Gestirnir voru þó ekkert á því að gefa forystuna eftir og skoruðu næstu 7 stig og aftur munaði átta stigum, staðan 58 – 66. Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir og staðan 63 – 68 kom þristur frá Hreini Birgissyni, Þórsarar klikkuðu á næstu sókn sinni og Hreinsi skellti öðrum þristi í andlitið á gestunum sem voru nú komnir undir í stöðunni 69 – 68. Þarna voru bæði lið búin að missa mann af velli með fimm villur, en Luttman Tindastólsmaður og Baldur Ragnarsson Þórsari höfðu lokið leik.
 
Gestirnir voru nú ekki á því að leggjast á bakið þó heimamenn væru komnir yfir og náðu aftur forystu 71 – 72. Heimamenn voru hinsvegar komnir með nasaþef af sigri og skoruðu næstu 5 stig þar af var Þröstur með þrist. Aftur náðu hinsvegar gestirnir að jafna og staðan 76 – 76 og hálf mínúta eftir. Stólarnir héldu í sókn en þeir hentu boltanum útaf og Benni tók leikhlé fyrir Þór þegar 16 sekúndur voru eftir. Þeir fóru hinsvegar illa að ráði sínu og misstu boltann strax eftir innkastið og brutu síðan á Maurice Miller sem fór á línuna. Hann setti bæði vítin niður af öryggi, 78 – 76 og 3,8 sekúndur eftir. Þór tók leikhlé og skipulagði sína síðustu sókn. Stólarnir náðu að krafla í innkast Þórsara, en að endingu barst boltinn til Hairston sem náði þriggja stiga skoti á körfuna, en niður vildi boltinn ekki og heimamenn fögnuðu sigri og sæti í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar.
 
Stigahæstur Tindastólsmanna var Maurice Miller með 22, en næstir komu Allen og Svavar með 12 stig. Þá var Hreinn Birgisson mikilvægur þegar Stólarnir náðu að snúa leiknum sér í hag. Hjá Þór var Govens með 23 stig og Hairston 21 stig og 11 fráköst.
 
Tindastóll: Miller 22, Allen 12, Svavar 12, Hreinn 8, Luttman 8, Friðrik 6, Þröstur 5, Helgi Freyr 3 og Helgi Rafn 2.
 
Þór: Govens 23, Hairston 21, Guðmundur 2, Janev 10, Baldur 4, Darri 4 og Þorsteinn 2.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Jón Bender og Halldór Geir Jensson.
 
 
Texti: JS
Mynd með frétt/ Hjalti Árnason: Hreinn Gunnar Birgisson átti sterka innkomu af Tindastólsbekknum í gær, fullkominn leikur hjá kappa ef svo má að orði komast, 2 af 2 í þriggja, 2 af 2 í vítum og 5 fráköst.
 
   
Fréttir
- Auglýsing -