spot_img
HomeFréttirEnginn 11. apríl fögnuður í Ljónagryfjunni - Haukar áttu fjórða leikhluta

Enginn 11. apríl fögnuður í Ljónagryfjunni – Haukar áttu fjórða leikhluta

Njarðvíkingar fengu engan titil í kvöld, ekkert 11. apríl hóf. Haukar mættu með ekki bara bakið heldur höfuð og hjarta upp við vegg í Ljónagryfjuna, 2-0 undir í seríunni og sjö stigum undir eftir þriðja leikhluta. Haukar skiptu um gír og unnu fjórða leikhluta 15-25 og leikinn 66-69 eftir magnaðar lokamínútur. Tierny Jenkins átti tröll af frammistöðu í kvöld með 26 stig og heil 29 fráköst. Jence Rhoads hristi sig einnig í gang og Haukar börðu fram sigur og leik númer fjögur á laugardag sem fram fer í Hafnarfirði. Það gerist vísast ekki oft að lið vinnur körfuboltaleik án þess að skora þriggja stiga körfu en það gerðist í kvöld, Haukar voru 0 af 5 í þristum en unnu samt!
Lele Hardy opnaði leikinn með þriggja stiga körfu en nýting liðanna á upphafsmínútunum var dræm og þessi dræma nýting elti Hauka reyndar lengra inn í leikinn. Hardy og Baker tóku þó af skarið í heimaliðinu og þegar þær höfðu gert sín hvor sjö stigin og staðan 14-6 tók Bjarni leikhlé fyrir Hauka. Ræðan skilaði ekki tilætluðum árangri og Njarðvíkingar leiddu 21-11 eftir fyrsta leikhluta.
 
Í öðrum leikhluta spreyttu Haukar sig í svæðisvörn en Njarðvíkingar létu þá rigna, þrír þristar frá Hardy, Ínu og Ingibjörgu Elvu breyttu stöðunni í 30-13 og margir grænir hugsuðu sér víst gott til glóðarinnar þegar hér var komið til sögu. Eftir 15 mínútna leik reyndu Haukar sinn fyrsta þrist í Ljónagryfjunni, hann vildi ekki niður og ekki næstu fjórir heldur sem komu í leiknum.
 
Njarðvíkingar leiddu 33-22 í hálfleik og unnu annan leikhluta 12-11. Lele Hardy var með 13 stig og 12 fráköst hjá Njarðvík í hálfleik en hjá Haukum var Tierny Jenkins með 10 stig og 17 fráköst og þeim átti bara eftir að fjölga.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
UMFN: Tveggja 32% – þriggja 23,8% og víti 40%
Haukar: Tveggja 27% – þriggja 0% – víti 40%
 
Þriðji leikhluti var hnífjafn, Rhoads var enn í strangri gæslu og gekk illa að koma sínu áleiðis fyrir Haukana. Petrúnella Skúladóttir tók myndarlega rispu fyrir Njarðvíkinga og skoraði átta stig með skömmu millibili. Haukar létu þó ekki stinga sig af tóku 8-0 áhlaup og minnkuðu muninn í 43-38.
 
Staðan að loknum þriðja leikhluta var 51-44 fyrir Njarðvík en Haukar unnu leikhlutann 18-22 og þennan meðbyr tóku þær með sér inn í fjórða leikhluta.
 
Njarðvíkingar fengu heila mínútu í sókn í upphafi fjórða leikhluta! Dugnaður þeirra í sóknarfráköstunum skilaði loks körfu en þar var Salbjörg Sævarsdóttir að verki. Jence Rhoads sem fyrstu tvo leikina hefur átt erfitt uppdráttar í fjórða leikhluta líkt og allt Haukaliðið setti á sig leiðtogahattinn og skellti niður fjórum stigum í röð og Haukar minnkuðu muninn í 55-54. Snöggtum síðar komust þær yfir 55-56 og voru þá funheitar á 8-0 skriði.
 
Hafnfirðingar náðu svo upp fjögurra stiga mun 58-62 áður en Baker-Brice skoraði og fékk villu að auki og staðan 61-62 fyrir Hauka. Rhoads skoraðist ekki undan og svaraði í sömu mynt fyrir Hafnfirðinga og staðan 61-65. Slæm ákvarðanataka Njarðvíkinga á lokasprettinum varð þeim svo dýrkeypt, Hardy reyndi erfiðan þrist þegar 25 sekúndur voru til leiksloka. Haukar fóru reyndar á taugum vítalínunni og misnotuðu fjögur víti í röð sem hefðu endanlega gert útslagið og í stöðunni 66-69 fyrir Hauka fengu Njarðvíkingar færi á því að jafna leikinn með þriggja stiga skoti. Aftur var Hardy á ferðinni fyrir utan þriggja stiga línuna og aftur hitti hún ekki körfuhringinn og Haukar fögnuðu því sigri.
 
Haukar spilltu því gleðinni í Njarðvík í kvöld og staðan í einvíginu er því 2-1 Njarðvík í vil. Liðin mætast aftur á laugardag í Schenkerhöllinni, ef Njarðvík vinnur verða þær Íslandsmeistarar, ef Haukar vinna verður oddaleikur í Njarðvík.
 
Heildarskor:
 
Njarðvík: Shanae Baker-Brice 22/8 fráköst/3 varin skot, Lele Hardy 17/18 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 11/6 fráköst, Harpa Hallgrímsdóttir 6/7 fráköst, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 3, Ína María Einarsdóttir 3, Ólöf Helga Pálsdóttir 2/4 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 2, Erna Hákonardóttir 0, Eyrún Líf Sigurðardóttir 0, Sara Dögg Margeirsdóttir 0, Andrea Björt Ólafsdóttir 0.
 
Haukar: Tierny Jenkins 26/29 fráköst/6 varin skot, Jence Ann Rhoads 19/6 fráköst/6 stoðsendingar/4 varin skot, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 11/4 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/5 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 4, Sólrún Inga Gísladóttir 0, Sara Pálmadóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0.
 
Skotnýting liðanna í leiknum:
UMFN: Tveggja 31,5% – þriggja 22,5% og víti 75%
Haukar: Tveggja 39,7% – þriggja 0% (0 af 5) – víti 65,2%
 
Byrjunarliðin:
Njarðvík: Shanae Baker-Brice, Petrúnella Skúladóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir, Salbjörg Sævarsdóttir og Lele Hardy.
Haukar: Jence Ann Rhoads, Margrét Rósa Háldfándardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir og Tierny Jenkins.
 
Dómarar leiksins: Jón Guðmundsson og Davíð Hreiðarsson
 
Umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -