Garðbæingar hafa lokið keppni á heimavelli þetta tímabilið með tapleik, liðið gat í kvöld tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Grindavík en sóknarfrákastaóðir gestirnir nældu sér í oddaleik með 82-88 sigri. Þeir félagar Aaron Broussard og Davíð Ingi Bustion börðust eins og ljón í liði gestanna og leiddu gula aftur heim í Röstina. Stjörnumenn voru alltaf að leiða en tókst ekki að brjóta ísinn, Grindvíkingar héldu út og á sunnudag verður oddaleikur!
Við þurfum svo sem ekki að kafa langt aftur til þess að finna lið sem hefði á heimavelli geta tryggt sér titilinn í fyrsta sinn í sögunni en misstu af því tækifæri. Það gerðist síðast árið 2010. Snæfell gat þá tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn en töpuðu heima í fjórða leik, fóru til Keflavíkur og lönduðu sigri að endingu. Hvort hið sama verði uppi á teningnum á sunnudag kemur í ljós, annað hvort það eða Grindavík vinnur tvö ár í röð. Eitt er þó deginum ljósara…það er vissara að fara að huga að því að tryggja sér miða fyrir sunnudaginn því Röstin rúmar ekki jafn marga og Ásgarður!
Fullfermi var í Ásgarði í kvöld, Silfurskeiðin stóð þétt við bakið á sínum mönnum og lætin gríðarleg í bláum heimamönnum. Grindvíkingar voru öllu færri í húsinu en létu vel til sín taka í söngvum og gleði.
Stjörnumenn byrjuðu vel, stóru strákarnir Fannar og Mills voru að skella niður þristum. Í stöðunni 16-11 rönkuðu Grindvíkingar við sér og breyttu stöðunni í 19-24 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta. Nokkuð var farið að hitna undir Aaron Broussard sem átti helling eftir á tanknum.
Í öðrum leikhluta breytti Broussard stöðunni í 25-36 með þrist og var aftur á ferðinni fyrir utan þegar hann kom Grindavík í 31-45. Jóhann Árni gerði svo sín fyrstu stig undir lok fyrri hálfleik og jú það var þristur og Grindvíkingar leiddu 37-51 í hálfleik. Broussard var stórkostlegur í fyrri hálfleik með 23 stig og 6 fráköst en Jarrid Frye var með 11 stig í liði heimamanna. Vörn gestanna var einnig þétt, þeir vörðu alls níu skot í fyrri hálfleik!
Það er ekkert nýtt undir sólinni og snemma í síðari hálfleik fékk Sigurður Gunnar Þorsteinsson sína fjórðu villu. Inn í hans stað kom Davíð Ingi Bustion og virkaði hann eins og vítamínssprauta á Grindavíkurliðið. Ef hann var ekki að taka sóknarfráköst þá var hann lykilmaður í varnarleiknum. Munurinn var 14 stig í hálfleik en Stjarnan náði að minnka hann niður í 12 stig eftir þriðja hluta, staðan 57-69 fyrir Grindavík eftir 30 mínútur og angistin í andlitum heimamanna leyndi sér ekki, þeim sveið byrjendamistök eins og að stíga ekki almennilega út og missa rándýr fráköst í hendur Grindvíkinga.
Stjörnumenn fengu ljóstýru strax í upphafi fjórða leikhluta, Ólafur Ólafsson tók miður góða ákvörðun og braut á Jovan Zdravevski í þriggja stiga skoti. Ef það var ekki nóg ákvað Ólafur að lesa honum pistilinn og fékk dæmt á sig tæknivillu fyrir vikið og Garðbæingar tóku fimm vítaskot, settu niður fjögur og minnkuðu muninn í 61-69. Munurinn komst niður í 63-69 en þá tóku gulir aftur á rás, breyttu stöðunni í 63-76 með 2-7 dembu. Menn týndust svo af velli með fimm villur, Sigurður Gunnar fékk sína í Grindavíkurliðinu og þeir Mills og Frye sáu einnig fimm villur í liði Stjörnunnar, það tók talsvert bit úr heimamönnum sem þó gáfust aldrei upp.
Lokaspretturinn varð að vítaleik, Grindavík hélt spilunum þétt að sér og kláruðu dæmið 82-88 og tryggðu sér þannig oddaleik næsta sunnudag. Oddaleikurinn fer fram í Röstinni, allt undir og sigurvegarinn verður Íslandmeistari! Tveir heimasigrar komnir, tveir útisigrar komnir og verði ykkur að góðu að tippa á oddaleikinn.
Árið 2010 fór síðast fram oddaleikur, hann varð ójafn, 69-105 sigur Snæfells gegn Keflavík. Árið 2009 fór fram einn magnaðasti oddaleikur síðari ára, KR vann þá Grindavík 84-83 en þar á undan kom síðasti oddaleikur árið 1999 þegar Keflavík vann Njarðvík og þá var boðið upp á sömu lokatölur og í kvöld, 88-82. Það er ekki á vísan að róa í þessu.
Maður leiksins: Aaron Broussard, 37 stig, 12 fráköst, 2 stolnir boltar og 2 stoðsendingar.
Innkoma kvöldsins: Davíð Ingi Bustion, 6 stig og 13 fráköst.
Umfjöllun/ [email protected]