spot_img
HomeFréttirEngin gestrisni í DHL höllinni

Engin gestrisni í DHL höllinni

Fyrsti leikurinn í úrslitaeinvíginu um íslandsmeistaratitilinn fór fram í DHL-höllinni í kvöld. Núverandi íslands, bikar og deildarmeistarar KR mættu þá Haukum sem enduðu í fjórða sæti deildarinnar. Bæði lið hafa farið erfiða leið og er komð að úrslitastundinni.

 

KR getur unnið sinn fjórtánda íslandsmeistaratitil en Haukar sinn annan. Gestirnir spiluðu í fyrsta sinn í úrslitaeinvíginu í 23 ár en KR liðið þrautreynt í þessari stöðu. Bæði lið voru fullmönnuð og allir gleymdu tognunum, nefbrotum, veikindum  og spiluðu þennan leik enda mikið í húfi.

 

Ljóst var á fyrstu mínútum leiksins að mikilvægið var mikið og spennustigið gríðarlegt. Liðin tóku langan tíma að þreyfa á hvort öðru auk þess sem liðin hittu mjög illa úr opnum skotum. Haukar náði forystu í fyrsta leikhluta með Kára Jóns í broddi fylkingar. Strákurinn setti sjö stig í röð og kom Haukum yfir 7-15.

 

Stemmningin var algjörlega Haukamegin í fyrsta leikhluta, vörn þeirra var geggjuð þar sem þeir lokuðu á helstu vopn KR og komu þeim í erfið skot. KR var 0 af 8 í þriggja stiga skotum og tapaði þrem boltum. Haukar hittu einnig illa og var það helst ástæðan fyrir því að munurinn var ekki meiri en sex stig þegar leikhlutanum lauk.

 

Brynjar Þór Björnsson fór fyrir sínum mönnum í byrjun annars leikhluta og var sá eini með stig fyrir liðið á fyrstu þrem mínútum leikhlutans. Það kveikti í KR þar sem Haukar skoruðu einungis tvö stig á þriggja mínútna kafla og KR komst yfir í fyrsta skipti í leiknum.

 

Það munaði miklu að Haukar tóku Brandon Mobley útaf sem gaf Michael Craion auðveldari körfur og tíma. KR náði átta stiga forystu þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Haukum gekk mjög illa sóknarlega, KR tók stjórnina á leiknum og voru skynsamari í sókninni.

 

Varnarleikur KR var frábær í öðrum leikhluta og voru öll stig Hauka þvinguð og ofboðslega erfið. Á sama tíma féll varnaleikur Hauka eins og spilaborg því liðið fékk á sig heil 30 stig í öðrum leikhluta. Brynjar Þór og Craion fóru fyrir sínum mönnum með samtals 27 stig. Hjá Haukum var Kári með 7 stig, 3 fráköst og 5 stoðsendingar, þeim vantaði hinsvegar framlag frá Brandon Mobley sem var einungis með fjögur stig og 20% skotnýtingu.

 

Haukar voru fljótir að brotna undan svakalegri vörn KR og vantaði mikið uppá spilamennsku þeirra. Fyrir vikið var munurinn þrettán stig KR í vil 43-30 þegar liðin héldu til búningsklefa í hálfleik.

 

Það var bara eitt lið á vellinum í upphafi síðari hálfleiks og var eins og Haukar hefðu framlengt hálfleikinn um fimm mínútur því KR gjörsamlega valtaði yfir þá. Varnarleikur Hauka hélt áfram að hripleika og sóknarleikurinn óskynsamur og hugmyndasnauður.

 

KR hinsvegar spilaði sterka vörn og hittu vel. Staðan 66-45 fyrir KR þegar haldið var til loka leikhlutans og Haukar þurftu á kraftaverki að halda til að komast aftur í leikinn.

 

Kraftaverkin gerast ekki á hverjum degi og þessi þriðjudagur bauð ekki uppá eitt slíkt. Byssur KR hitnuðu allhressilega og tvær þriggja stiga körfur frá Brynjari Þór komu muninum í nærri þrjátíu stig og úrslitin svo gott sem ráðin.

 

Heimamenn gjörsamlega söltuðu Hauka á lokamínútunum þar sem þeim tókst að rífa upp  skotnýtinguna sína gríðarlega þar sem allt virtist rata ofan í. Lokastaðan 91-61 fyrir KR í  einstefnuleik þar sem þeir sýndu nákvæmlega enga gestrisni.

 

Kári Jónsson fer útaf meiddur þegar fimm mínútur eru liðnar af seinni hálfleik, hann virtist hafa snúið á sér ökklann og var sárþjáður. Það yrði gríðarlegur skellur fyrir einvígið og ekki síst Hauka ef meiðsli hans eru alvarleg.

 

Haukar voru ofboðslega linir í leiknum ólíkt því sem sást í einvíginu gegn Tindastól. Þeir eiga margfalt meira inni og mæta bókað snarvitlausir í næsta leik. Þrátt fyrir slæmt tap þá er einvígið langt því frá að vera lokið því það hefur margt oft sýnt sig að lið hafa snúið rimmum sér í hag í eftir verri töp.

 

Brynjar Þór var besti leikmaður vallarins með 20 stig, hann steig upp og reif stemmninguna upp í liðinu. Craion skilaði einnig 19 stigum og 12 fráköstum en samspil hans og Pavels var frábært í kvöld og höfðu Haukar vandræðalega fá svör við því. Þrátt fyrir 0% þriggja stiga nýtingu KR í fyrsta leikhluta tókst þeim að ná henni uppí 37% fyrir leikslok og vóg það gríðarlega mikið í leiknum.

 

Haukar fengu hrikalega lítið framlag frá lykilmönnum sínum í kvöld og ber þar helst að nefna Hauk Oskarsson og Hjálmar Stefánsson sem hreinlega voru ekki með í þessum leik. Þrátt fyrir að Brandon Mobley hafi skilað 12 stigum og 15 fráköstum vantaði mikið uppá hans spilamennsku.

 

KR náði þar með forystinunni sanngjarnt í einvíginu með mjög góðri spilamennsku. Haukar eiga nokkuð í land og margt í leik KR virtist koma þeim á vandræðalega óvart sem það ætti alls ekki að hafa gert. Líkurnar á að KR gangi yfir Hauka í næsta leik eru hverfandi og munu þeir sjálfsagt mæta dýrvitlausir í hann.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndir / Bára Dröfn

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -