spot_img
HomeFréttirEngin bikarþynnka hjá KR

Engin bikarþynnka hjá KR

Sannkallaður toppslagur fór fram í vesturbæ Reykjavíkur þegar efsta liðið í Dominos deild karla, KR tók á móti Keflavík sem var í öðru sæti deildarinnar. Fyrri leikur liðanna endaði með átta stiga sigri Keflavíkur og því þurfti KR að vinna þennan leik með meiri mun til að vera með yfirhöndina í innbirgðisviðureignum liðanna. Með sigri gat Keflavík því komist í efsta sæti þegar einungis fjórar umferðir væri eftir óspilaðar.

 

Nýkrýndir bikarmeistarar KR hafði unnið fimm leiki í röð í deildinni en spurningin er hvort þessi týpíska „bikarþynnka“ yrði liðinu erfið. Keflavík aftur á móti tapaði síðasta leik gegn Grindavík á heimavelli og því staðráðnir í að sína sitt rétta andlit.

 

KR hlógu af öllu tali um bikarþynnku og mættu heldur betur klárir í slaginn. Þeir settu fyrstu níu stig leiksins án þess að Keflavík ættu nokkur svör. Sóknarleikur Keflavíkur var eins og óseigur kjötbiti, þeir reyndu að þröngva boltanum mikið inn í teig með virkilega slökum árangri.

 

Varnarleikur liðsins var ekki skömmini skárri. KR fékk ítrekað auðveldar körfur og Jerome Hill réð nákvæmlega ekki neitt við Michael Craion undir körfunni. Ekki skal tekið af KR að þeir voru virkilega einbeittir og góðir frá fyrstu mínútu.

 

Fyrsta leikhluta lauk með fjórum þriggja stiga körfum í röð sem dreifðust jafnt á milli liðanna. Þá var staðan 36-16  KR í vil og hola Keflvíkinga orðin ansi djúp strax í upphafi. Átta leikmenn KR komust á blað í þessum fyrsta fjórðung og allt leit út fyrir göngutúr í garðinum fyrir bikarmeitarana.

 

Sóknarleikur gestanna fór batnandi í öðrum fjóðung en KR svaraði nánast alltaf. Þegar leið á fjórðunginn náði Keflavík nokkrum stoppum í vörninni og minnkaði muninn niður í þrettán stig. KR voru með ráð undir rifi hverju og náðu muninum aftur uppí í átján stig þegar flautað var til hálfleiks.

 

KR valtaði því yfir Keflavík í fyrri hálfleik en staðan var 57-39 að honum loknum. Það mátti helst þakka 57% skotnýtingu liðsins gegn 24% hjá gestunum.

 

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði, Keflavík hitti vel fyrir utan þriggja stiga línuna en varla fyrir innan hana. KR mallaði inn stigum og hélt þessum tuttugu stiga mun áfram.

 

Keflavík ætlaði greinilega að koma grimmari til leiks í seinni hálfleik. Kannski full mikið því þeir voru komnir í skotbónus þegar einungis þrjár mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Níu stig í röð frá KR á síðustu tvem mínútum þriðja fjórðungs jók muninn enn meira og staðan að honum loknum 84-58 fyrir KR.

 

Lokafjórðungurinn bar þess keim að leikurinn var svo gott sem búinn. Keflavík reyndi hvað þeir gátu að ná áhlaupi og minnka muninn. Valur Orri komst loksins í gang en það skila ekki meiru en minni mun á liðunum.

 

Gestirnir kepptust við að saxa á forskotið til að freista þess að sigra innbirgðisviðureignina á KR. Það tókst ekki og 16 stiga sigur KR að lokum staðreynd, 103-87.

 

Maður leiksins var Michael Craion, hann var allt að því óstöðvandi undir körfunni sóknarlega og varnarlega. Craion skilaði 21 stigi og 5 fráköstum, einnig var Pavel Ermolinskij frábær en hann var skuggalega nálægt þrefaldri tvennu eða með 13 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar. Liðsheildin skilaði þó þessum sigri en allir leikmenn sem spiluðu komust á blað.

 

Vert er að nefna fyrirliðann Brynjar Þór Björnsson sem fékk viðurkenningu fyrir leik þar sem hann varð í kvöld leikjahæsti leikmaður KR frá upphafi með 388 leiki í öllum keppnum.

 

Hjá Keflavík var Jerome Hill atkvæðamestur með 17 stig og 18 fráköst. Hann var samt lengi í gang og skilaði mestu þegar minnst var undir. Aðrir leikmenn hittu ekki á sinn besta dag en það var þó helst Magnús Þór sem gerði sitt besta þegar hann kom af bekknum að rífa liðið áfram.

 

Virkilega sterkur sigur KR á Keflavík í kvöld og má alveg leyfa sér að tala um tvö til þrjá putta á deildarmeistarabikarnum. Þetta kemur þeim fjórum stigum á undan Keflavík auk þess sem þeir eru yfir á innbirgðisviðureignum liðanna.

 

Keflavík aftur á móti tapar sínum öðrum leik í röð og hafa ekki verið sannfærandi uppá síðkastið. Of margir lykilmenn liðsins voru einfaldlega ekki með í dag og ber það helst að nefna Val Orra sem átti sinn versta leik í vetur, 11 stig og fimm stoðsendingar og það allt í fjórða leikhluta. Svo bregðast krosstré sem önnur tré og klárt að kauði mætir tvíefldur í næsta leik.

 

Tölfræði leiksins

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson – @Olithorj

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -