spot_img
HomeFréttirEndurtaka Haukar leikinn?

Endurtaka Haukar leikinn?

16:15
{mosimage}

(Unnur Tara Jónsdóttir í leik gegn Valskonum) 

Unnur Tara ætlar sér sigur í Höllinni 

Íslands- og bikarmeistarar Haukakvenna í körfuknattleik mæta Grindavík í úrslitaleik Lýsingarbikarsins næstkomandi sunnudag í Laugardalshöll kl. 14:00. Haukar höfðu magnaðan bikarsigur gegn Keflavík í úrslitaleiknum í fyrra 78-77 og freista þess að endurtaka leikinn annað árið í röð. Haukar hafa fjórum sinnum orðið bikarmeistarar í kvennaflokki en alls hefur liðið leikið sex sinnum til úrslita, fyrst árið 1984 þegar Haukar lögðu ÍS 69-57 í úrslitaleiknum. Víkurfréttir náðu tali af Unni Töru Jónsdóttur sem leikur stöðu kraftframherja í Haukaliðinu en fyrir unga konu frá Patreksfirði er það nokkuð frábrugðið hennar heimahögum að leika frammi fyrir alþjóð á þjóðarleikvanginum. Þetta kemur fram í 8.tbl. Víkurfrétta í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi í gær, fimmtudaginn 21. febrúar.  

,,Já, það voru smá viðbrigði að koma í Laugardalshöll í fyrra. Ég er eignlega stressuð fyrir alla stórleiki og það er mjög gaman að spila fyrir fullt af fólki,” sagði Unnur Tara sem lék sinn fyrsta bikarúrslitaleik í meistaraflokki í fyrra. Unnur Tara hélt á mölina áramótin 2003-2004 og hefur allar götur síðan þá skipað sér á sess með öflugustu körfuknattleikskonum þjóðarinnar. ,,Ég veit að fólkið mitt á Patreksfirði fylgist vel með mér og alltaf þegar maður fer heim þá fær maður staðfestingu á því,” sagði Unnur en faðir hennar býr enn á Patreksfirði en Unnur í Kópavogi. ,,Hann er Haukamaður í húð og hár í körfuboltanum,” sagði Unnur um faðir sinn. 

Unnur Tara er mikil baráttumanneskja og hefur fengið sinn skerf af tæknivítum sem leikmaður Hauka, hvaðan kemur allt þetta skap og hvernig undirbýr hún sig fyrir svona stórleiki? 

,,Ég hugsa mikið um leikinn sjálfann og skoða leikmennina í hinu liðinu, þá leikmenn sem ég kem til með að verjast og reyni að koma vel stemmd í leikinn. Ég hef mikinn áhuga á körfubolta og þoli ekki að tapa og er komin með það orðspor á mig að fá tæknivillur. Dómararnir gefa mér kannski minni séns en öðrum leikmönnum en maður leggur sig allan í þetta og gerir hvað maður getur til þess að tapa ekki,” sagði Unnur sem býst við hörkuleik á sunnudag gegn Grindavík. 

,,Þær eru á fullu skriði núna og við munum þurfa að eiga okkar besta leik til að vinna, við komumst ekki upp með neitt minna. Þær hafa tvo mjög góða erlenda leikmenn sem við þurfum að stoppa. Það gæti svo kannski hjálpað okkur að Grindavík hefur aldrei orðið bikarmeistari ef þetta verður tæpur leikur. Okkur hefur gengið vel þegar allt er í járnum og við ætlum okkur bara sigur,” sagði Unnur en Haukar hafa verið nokkuð brokkgengir í vetur enda töluverð breyting sem átti sér stað á liðinu að lokinni síðustu leiktíð.,,Við höfum bara tekið framförum frá því að tímabilið hófst og þetta er ekki sama Haukaliðið og í fyrra. Þetta var erfitt í byrjun tímabils hjá okkur en við höfum verið að þjappa okkur aftur saman og það tók smá tíma en núna þekkjum við vel hverja aðra og farnar að spila betur saman sem lið. Þegar við leikum okkar bolta getur ekkert lið stoppað okkur,” sagði Unnur ákveðin. Hvernig ætlar hún svo að eyða síðustu stundunum fyrir leikinn stóra á sunnudag? 

,,Ætli ég reyni að hugsa ekki of mikið um leikinn, stressa mig ekki of mikið og hafa gaman af þessu því ég hlakka mikið til. Svo fæ ég mér hafragraut um 2-3 tímum fyrir leik og kannski ávexti þegar líða fer að leik,” sagði Unnur Tara sem á sunnudag mun freista þess að færa Haukum sinn annan bikarmeistaratitil í röð.  

Víkurfréttir, www.vf.is og www.vikurfrettir.is

Fréttir
- Auglýsing -