spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaEndurkomusigur Vals með Pavel í broddi fylkingar

Endurkomusigur Vals með Pavel í broddi fylkingar

EValsarar byrjuðu vel á heimavelli í kvöld og leiddu 11-3 um miðjan fyrsta leikhluta. Þórsarar snéru leiknum sér í vil með góðu áhlaupi og leiddu allt þar til í byrjun 4. leikhluta þegar Valsliðið var búið að taka sig saman og snéru leiknum aftur. Pavel og Frank Aron áttu stærstan þátt í viðsnúningnum en varnarleikur Vals var til fyrirmyndar síðustu tólf mínúturnar eða svo. Sóknarleikur Þórsara hikstaði og Valsliðið gekk á lagið og landaði öðrum sigrinum í jafnmörgum leikjum.

Gangur leiks:

Fyrri hálfleikur var jafn og þokkalegasta skemmtun. Halldór Garðar var sérstaklega öflugur hjá gestunum og setti öll þrjú þriggja stiga skot sín niður í 2. leikhluta. Halldór var 5 af 6 af gólfinu í fyrri hálfleik. Þór leiddi 41-44 í leikhléi. Booker, Illugi S. og Jones voru atkvæðamestir hjá Val. Bailey og Halldór langatkvæðamestir hjá gestunum.

Seinni hálfleikur byrjaði vel hjá gestunum liðið komst fljótlega í góða forystu og leiddi mest með 14 stigum. Það kviknaði á Pavel undir lok 3. og hann tók yfir leikinn á næstu mínútum með góðum varnarleik og miklu sóknarframlagi. Hann skoraði níu stig í röð í byrjun 4. leikhluta auk þess að þvinga tapaðan bolta og eiga þátt í sóknarfrákasti sem skilaði þrem stigum frá Bracey. Frikki þurfti að taka leikhlé því Valur var komið yfir. Valur hélt forystunni og jók hana jafnt og þétt. Frank Aron hitti vel í 4. og hann hjálpaði heimamönnum mikið. Það slokknaði alveg á Halldóri Garðari í seinni hálfleik. Bailey hélt áfram að setja niður körfur en það þurfti framlag frá fleirum.

Vendipunkturinn:

Það voru nokkrir tapaðir boltar hjá Þór undir lok þriðja leikhluta og óöguð skot sem komu Völsurum inn í leikinn og gaf þeim blóð á tennurnar.

Hetjan: Pavel Ermolinskij

Orðum það þannig að ef Pavel hefði ekki kveikt á sér og þar með öllu Valsliðinu með meiri krafti, fyrst varnarlega, hefði liðið aldrei komið til baka. Pavel skilaði 29 framlagspunktum. Frank Aron Booker kom sterkur inn með þrista í fjórða og skilaði 25 stigum. Vincent Terrence Bailey var langatvæðamestur hjá Þórsurum með 32 stig.

Tölfræðin lýgur ekki:

18 tapaðir boltar hjá Þórsurum gegn aðeins átta hjá Völsurum. Þar af komu nokkrir slíkir hjá Þór undir lok þriðja leikhluta þegar Valsliðið kveikti á sér.

Ungir Valsarar studdu við hetjurnar:

Á þriðja tug ungra iðkenda hjá Val mættu í upphitun og byrjuðu að styðja við sína menn. Þeir fengu svo að leiða hetjur sínar þegar þær voru kynntar til leiks.

Þriggja villu sókn á þriðju mínútu:

Þórsarar brutu af sér þrisvar sinnum í sömu sókninni á þriðju mínútu leiksins. Liðið byrjaði illa í leiknum en vann sig þó fljótlega inn í leikinn.

Ákveðinn Friðrik:

Valsarar leiddu 11-3 eftir fimm mínútur af leiknum og Friðrik, þjálfari Þórsara, tók leikhlé. Hans menn hlustuðu ekki á hann til að byrja með og lét hann vita hver réði og sagði mönnum að gjöra svo vel að hlusta þegar hann talaði. ,,Listen when I talk” eða eitthvað í þá áttina sagði hann við leikmenn í hléinu. Liðið svaraði með 10-1 áhlaupi og Ágúst tók leikhlé hjá heimamönnum, 12-13 fyrir gestina. Þórsarar leiddu 14-18 í lok 1. fjórðungs.

Tölfræði leiks

Umfjöllun & viðtöl / Sæbjörn Þór

https://www.youtube.com/watch?v=aixpoYCDhqA



Fréttir
- Auglýsing -