KR hafði betur gegn heimamönnum í Þór eftir framlengdan leik í Þorlákshöfn í kvöld í 14. umferð Bónus deildar karla, 123-126.
KR eftir leikinn í 6. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan Þór eru í 9. sætinu með 8 stig.
Ósigur í leik kvöldsins hlýtur að svíða allsvakalega fyrir heimamenn eftir frammistöðu þeirra gegn KR í kvöld. Fyrir utan nokkrar mínútur í öðrum fjórðung og svo í framlengingunni sjálfri var það Þór sem var með forystu allan leikinn.
Þegar mest lét voru Þórsarar 19 stigum yfir í fjórða leikhlutanum, en KR náði að vinna það niður á einhvern undraverðan hátt, ná að tryggja sér framlengingu. Í henni fer KR aldrei meira en fjórum stigum yfir, en sigra að lokum með þremur stigum, 123-126.
Stigahæstir heimamanna í kvöld voru Jacoby Ross með 31 stig og Rafail Lanaras með 30 stig.
Fyrir KR var stigahæstur Toms Leimanis með 29 stig og næstur honum var KJ Doucet með 27 stigum.



