spot_img
HomeFréttirEmil Þór: Er í körfubolta til þess að spila í úrslitakeppni

Emil Þór: Er í körfubolta til þess að spila í úrslitakeppni

Emil Þór Jóhannsson átti stóran þátt í sigri KR á Tindastól í kvöld en  Emil skoraði 9 stig í leiknum, stal þremur boltum og spilaði feikilega sterkan varnarleik.  Emil hefur heldur betur tekið af skarið fyrir KR í síðustu leikjum.  Framlag Emils kemur á besta tíma og ljóst að hann nýtur sín í stóru leikjunum.  
 "Geðveikt að vera kominn aftur úr meiðslunum og kominn í úrslitakeppnina sem er náttúrulega það skemmtilegasta sem maður gerir í körfubolta.  Maður er í körfubolta til þess að spila í úrslitakeppninni og þetta er bara tíminn til þess að vera í topp formi".  Martin Hermannsson, liðsfélagi Emils gekk þá framhjá og kallaði "Ég TRÓÐ"  en Emil átti einmitt eina stórglæsilega troðslu í leiknum eftir að hafa stolið boltanum af Curtis Allen.  

 

Það var mikið talað um það fyrir leikinn að Tindastóll væri sýnd veiði fyrir KR en ekki gefin.  Tindastóll sló KR út í bikarnum og þeir hafa því sýnt það í vetur að þeir geta unnið KR á góðum degi.  

"Við erum búnir að fara vel yfir sóknarleikinn þeirra og við vorum búnir að plana að spila virkilega fast á þá og við gerðum það í dag.  Við spiluðum hörku vörn, þeir náðu að hanga í okkur en í næsta leik þá bara pökkum við þeim saman".  

Lykilmaður í liði KR og þeirra vítamínsprauta í sóknarleiknum, Joshua Brown spilaði ekki jafn mikið og venjulega þar sem hann fékk að hvíla sig með fjórar villur á bakinu í þriðja leikhluta.  Það kom þó ekki að sök og KR sýndu styrk sinn og breidd.  

"Við erum með þvílíkt djúpt lið og ég veit ekki hvaða helvítis kjaftæði þeir voru að tala um að við værum bara með 5 leikmenn sem gætu spilað.  Það eru allir á bekknum sem geta spilað hjá okkur".  

 

Það er því ljóst að KR ætlar að klára þessa seríu í næsta leik?

"Ekki spurning". 

 

 

[email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -