spot_img
HomeFréttirEmil: Ingi Þór er snillingur

Emil: Ingi Þór er snillingur

 
,,Þetta var þvílíkur karakter og við sýndum að við erum besta liðið og við vorum tilbúnir í þetta verkefni. Við mættum í Keflavík og lékum hörkuvörn og bættum í flæðið sem vantaði algjörlega í leik fjögur, það small allt saman og við bara rústuðum þessum oddaleik,“ sagði Emil Þór Jóhannsson sem gerði 17 stig í gær þegar Snæfell varð Íslandsmeistari eftir oddaviðureign gegn Keflavík. Emil hefur vakið verðskuldaða athygli í vetur en hann hefur sprungið út í Stykkishólmi, kappinn byrjaði hjá Fjölni en fór til Snæfells úr Breiðablik að lokinni leiktíðinni 2008-2009.
Varð Emil eitthvað var við að silfurverðlaun nokkurra leikmanna í liði Snæfells væru að trufla eða hafa áhrif í þessari seríu eða valda leikmenn í hans liði?
 
,,Já, þeir voru bara þvílíkt hungraðir. Ég veit að þeir voru orðnir þreyttir enda löng úrslitakeppni að baki en þeir voru hungraðir,“ sagði Emil en getur hann verið nokkuð annað en sáttur að hafa tekið þá ákvörðun að flytjast í Hólminn?
 
,,Þetta var heldur betur góð ákvörðun og þetta er allt Inga Þór að þakka, hann er búinn að hafa þvílíka trú á mér og þetta hefur verið frábær vetur. Ingi Þór er snillingur og hann og aðrir leikmenn í liðinu eiga ekki síður hrós skilið fyrir að mér hafi gengið svona vel. Strákar eins og Hlynur, Siggi, Nonni og fleiri, þetta eru allt snillingar,“ sagði Emil en það sem kannski færri vita er að í þessu úrslitaeinvígi voru að mætast tveir fyrrverandi vopnabræður en Emil og Hörður Axel Vilhjálmsson leikmaður Keflavíkur léku saman í yngri flokkunum hjá Fjölni. Voru þeir eitthvað að tala saman um sín mál í úrslitaseríunni?
 
,,Það var mjög gaman að mæta Herði í þessari seríu og mjög sætt að ná sigri en við ræddum ekkert saman á meðan einvíginu stóð heldur einbeittum okkur bara að því að spila og reyna að vinna þennan titil,“ sagði Emil en hvernig verður framhaldið hjá honum?
 
,,Bara áfram með Snæfell, ég er kominn til að vera.“
 
Fréttir
- Auglýsing -