spot_img
HomeFréttirEmil Barja að semja við KR

Emil Barja að semja við KR

Körfuknattleiksdeild KR hefur boðað til blaðamannafundar nú kl 17:00 í DHL-höllinni þar sem kynna á nýjan leikmann félagsins. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Karfan.is verður Emil Barja kynntur sem nýr leikmaður KR og mun leika með liðinu á komandi leiktíð í Dominos deild karla. 

 

Emil Barja hefur leikið allan sinn feril hjá Haukum og hefur verið lykilleikmaður liðsins síðustu ár er liðið hefur komist í úrslit Íslandsmótsins og urðu svo deildarmeistarar á síðustu leiktíð. Hann var með 9,1 stig, 6,1 frákast og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í leik með Haukum á síðustu leiktíð. 

 

Emil hefur verið viðloðandi landsliðið í gegnum tíðina en á enn eftir að leika A-landsliðsleik. Hann var samningslaus frá Haukum í sumar og hefur nú ákveðið að semja við Íslandsmeistara síðustu fimm ára. 

 

Það er því ljóst að þetta er mikið áfall fyrir Hauka sem mæta með nokkuð breytt lið til leiks á komandi tímabili. Haukar missa Finn Atla Magnússon, Hilmar Pétursson og Breka Gylfason í sumar en Kristinn Marínósson og Hilmar Smári Henningsson hafa snúið til baka í Hafnarfjörð. 

 

 

Íslandsmeistarar síðustu fimm ára fá mikinn liðsstyrk í Emil en liðið er að ganga í gegnum miklar breytingar í sumar. Ingi Þór Steinþórsson er tekinn við liðinu af Finn Frey Stefánssyni sem sagði starfi sínu lausu. Liðið hefur misst Darra Hilmarsson, Brynjar Þór Björnsson, Kristófer Acox og Arnór Hermannsson frá síðustu leiktíð.  Dino Stipcic hefur þá samið við liðið og von er á fleiri fregnum úr Vesturbænum. 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -