Embla Kristínardóttir, leikmaður Skallagríms, var til tals í nýjasta þætti af Undir Körfunni hjá Atla Arasyni. Embla ræðir meðal annars brottrekstur Goran Miljevic, fyrrum þjálfara Skallagríms, en Embla segir að hún hafi átt einhvern þátt í því að Goran hafi verið rekin frá Skallagrím núna undir lok októbers 2021.
„Já klárlega. Ég get alveg viðurkennt það, ég setti fótinn niður og sagði hingað og ekki lengra. Ég spila ekki fyrir svona þjálfara. Ég gerði þeim [í stjórn] líka grein fyrir því að ég væri tilbúin að stíga til hliðar og hætta, því ég var ekki tilbúinn að vera þarna á æfingum og hlusta á allt þetta,“ sagði Embla.
Embla greinir frá því að Goran hafi verið með leiðinda ummæli og oftast beint að yngri leikmönnum sem fóru að vera smeykar um að mæta á æfingar hjá meistaraflokk, en Embla er einnig þjálfari hjá stúlknaflokk Skallagríms.
„Þetta voru bara óþarfa leiðindi. Það er verið að gera athugasemdir við fatnað hjá ungum leikmönnum og það er verið að gera athugasemdir við hárstíla, það var verið að gera lítið úr leikmönnum.“
„Ofan á það var alls ekki gaman á æfingum, við erum með mjög ungan hóp og yngri kynslóðin okkar voru orðnar stressaðar að koma á æfingu,“ svaraði Embla, aðspurð út í ummæli Groan.
„Það mátti ekki aðstoða yngri stelpurnar, útskýra fyrir þeim hvað við værum að gera því þær skildu oft ekki hvað við vorum að gera því hann talaði ekki góða ensku og þær ekki komnar nógu langt á sínum ferli til að skilja hvað við vorum að gera. Ég var mjög oft að hjálpa þeim og útskýra hvað við værum að gera og þá var mér sagt að grjóthalda kjafti. Ég átti ekki að hjálpa þeim, þær þurftu að finna út úr þessu sjálfar.“
„Ég gat ekki komið með 7 ára gamalt barnið mitt á æfingar því hann öskraði á það,“ sagði Embla.
Embla spilaði fyrstu þrjá leiki tímabilsins áður en henni er skyndilega kippt út úr liðinu hjá Goran. Í fjórða leik deildarinnar, í 49-79 tapi gegn Breiðablik, er Embla allan leikinn á varamannabekknum.
„Hann segir ekki við mig persónulega að ég væri ekki að fara að spila. Ég veit ekki á hvaða tímapunkti hann ætlaði að láta mig vita en hann var búinn að segja þetta við liðið. Svo segja stelpurnar mér það, að ég væri ekki að spila næsta leik en þá hafði ég ekki hugmynd um það. Þá talaði ég við Goran og hann segir mér að ég geti ekki sleppt æfingu daginn fyrir leik og ætlast til að spila, sem ég skil, hefði ég sjálf verið veik eða sjálf ekki komið á æfingu. Ég var heima með veikt barn, sem er aðeins öðruvísi. Ég var mjög ósátt,“ sagði Embla sem var ekki með pössun fyrir barnið sitt og gat því ekki mætt á umrædda æfingu.
„Ég læt hann vita að ég ætlaði að tala við stjórnina og geri það. Þetta var síðasti dropinn sem fyllti mælinn. Ég beit það þó í mig að mæta á bekkinn, hundfúl að fá ekki að vera með í leik sem að mér finnst að við hefðum alveg getað náð einum sigri. Bæði lið voru án stiga og ekkert spennandi að gerast hjá hvorugu liði. Ég horfði á þetta sem skyldusigur fyrir okkur.“
Embla ræddi við stjórn Skallagríms. Fyrst var ekki tekið vel í ummæli Emblu af stjórninni en Goran hegðaði sér að hennar mati alltaf öðruvísi þegar hann vissi að einhver úr stjórn væri að fylgjast með honum á æfingum.
„Ég steig upp sem fyrirliði liðsins og talaði við stjórnina og sagði að þetta væri ekki í boði, það voru allskonar hlutir að gerast sem áttu ekki að eiga sér stað. Stjórnin tók ekki vel í þetta fyrst því stjórnin var ekki á æfingum og hvorki sá né heyrði hvað var að gerast. Svo kom stundum einhver úr stjórninni eða einhver foreldri á æfingu, og þá var allt æðislegt á æfingum.“
„Hann [Goran] breyttist klárlega. Hann hefur fattað að þetta er ekki við hæfi hérna á Íslandi en hann var samt ekki að breyta því nema það kæmi einhver utanaðkomandi á æfingu.“
Eftir að stjórn Skallagríms fer að rannsaka málið betur þá koma fleiri sjónarmið í ljós. Stuttu síðar fær Goran Miljevic að fjúka og Nebojsa Knezevic tekur við stjórn liðsins og nú horfir allt til betri vegar samkvæmt Emblu.
„Þau í stjórninni voru ekkert rosalega sammála. Þau voru ekki viss hvort þetta væri allt satt en svo fara þau að tala við aðra leikmenn, tala við foreldra og aðra. Þá kemur þetta í ljós að staðan er svona. Þau er með þennan þjálfara sem hagar sér svona og árangurinn er heldur ekki góður. Þá er hann látinn fara. Nebojsa tekur við og þá fékk ég að mæta aftur á æfingar.“
„Nú má klappa og nú má segja vel gert. Eitthvað sem mátti ekki áður en það er mjög skrítið að ekki megi klappa inn á körfuboltavelli, peppa eða leiðbeina.“
„Það eru allir að jafna sig eftir þetta. Ég er ekkert að grínast með það þegar ég segi að stelpurnar voru svolítið ‘traumatized‘ eftir hann. Þetta eru bara stelpur í 10. bekk sem fengu skell á sig. Fyrir mér eru þær hetjur að vera þarna enn þá,“ sagði Embla Kristínardóttir, leikmaður Skallagríms.