11:37
{mosimage}
Verður Jose Calderon kosinn bestur
Úrslitaleikir Evrópumótsins hefjast nú klukkan 12 þegar Slóvenar og Frakkar keppa um sjöunda og síðasta sætið sem gefur aðgang að forkeppni Ólympíuleikanna. Úrslitaleikur Spánverja og Rússa hefst svo klukkan 19:30.
Leikur Slóvena og Frakka hefur mikla þýðingu þó aðeins sé verið að spila um sjöunda sætið, sæti í forkeppni Ólympíuleikanna er undir og á Ólympíuleika stefna allir. Þessi lið léku saman í riðlakeppninni og þá sigruðu Slóvenar 67-66 svo það má búast við hörkuleik í dag. Eftir mjög góða byrjun Slóvena í mótinu hefur leiðin legið niður á við og þeir hafa tapað síðustu þremur leikjum og spurning hvernig hugarástand leikmanna er í dag.
Leikur Þjóðverja og Króata um fimmtasætið hefst klukkan 14:30 og er það sá leikur sem hefur minnsta þýðingu í dag, bæði lið eru örugg með sæti í forkeppni Ólympíuleikanna. Króatar eru eina þjóðin sem hefur sigrað Spánverja í mótinu en gengi Þjóðverja hefur verið upp og ofan enda liðið að mestu byggt í kringum einn mann, Dirk Nowitzki. Þeir sýndu þó klærnar í gær þegar þeir sigruðu Slóvena.
Bronsleikurinn er leikur Evrópumeistara tveggja síðustu móta, Grikkja og Litháa. Í þessum leik er einnig barist um síðasta örugga sætið á Ólympíuleikum svo hér liggur mikið undir. Gengi þeirra í mótinu hefur líka verið ólíkt. Grikkir hafa leikið undir væntingum og fáir sem áttu von á þeim eins langt og þeir eru komnir eftir riðlakeppnina, en reynsla þeirra hefur komið að nýst þeim vel í útsláttarkeppninni. Litháar léku eins og sá sem valdið hefur í fyrstu sjö leikjum sínum en mættu svo Rússum í gær og þar gekk ekkert upp og þeir töpuðu sínum fyrsta leik. Spurningin er hvort þeir eru enn að sleikja sár sín.
Úrslitaleikurinn er svo leikur heimamanna og Heimsmeistaranna frá Spáni gegn Rússum en hvorug þessara þjóða hefur orðið Evrópumeistari þó Rússar hafi vissulega oft orðið það undir merkjum Sovétmanna. Spánverjar hafa fimm sinnum leikið til úrslita, síðast 2003. Liðin mættust í riðlakeppninni og þar sigruðu Spánverjar örugglega 81-69 og því má reikna með að Rússar vilji hefna nú en Spánverjar verða væntanlega studdir af hátt í 15000 áhorfendum sem vilja sjá sína menn lyfta bikarnum á heimavelli.
Mynd: www.eurobasket2007.org



