,,Við lögðum mikið upp úr því að stoppa erlendu leikmenn Hauka í kvöld og reyna að halda íslensku leikmönnunum í skefjum líka og þetta var einn mikilvægasti leikurinn á tímabilinu fyrir okkur til þessa. Við náðum að komast átta stigum framúr Haukum og höfum betur innbyrðis svo þetta var mjög góður sigur,“ sagði Elvar Friðriksson leikstjórnandinn ungi í liði Njarðvíkur í samtali við Karfan.is eftir sigur þeirra grænu gegn Haukum í Schenkerhöllinni í kvöld.
Duga þessi tvö stig í kvöld heldur þú til að halda Njarðvík frá fallsæti?
,,Nei það tel ég ekki, ég vil fara í alla leiki til að vinna og ná sem flestum stigum og ég vona að við náum að komast í úrslitakeppnina,“ sagði Elvar sem hefur farið út um víðan völl með Njarðvíkurliðinu á tímabilinu, stórir sigrar, taphrinur og svona nokkuð sveiflukennt tímabil til þessa.
,,Þetta er búið að vera svolítið ,,óstabílt“ hjá okkur og ég veit ekki hvort það sé reynsluleysi í deildinni eða eitthvað annað, í sumum leikjum mætum við tilbúnir en í öðrum erum við engan veginn tilbúnir. Við verðum bara að læra af þessu og mæta tilbúnir í alla leiki.“
Tveir sigrar í röð, ætti það ekki að virka vel á hópinn?
,,Að sjálfsögðu, allir sigra gefa manni smá ,,boozt“ og við reynum að ná þeim eins mörgum og við getum.“