Elvar Már Friðriksson, leikmaður Njarðvíkur heldur á morgun út í annað skiptið í mánuðinum til New York borgar á fund við þjálfara háskólaliðs. Nú hittir hann þjálfara LIU Brooklyn háskólans.
Lið LIU heitir Blackbirds og eru þeir erkifjendur Terriers, liðs St. Francis háskólans sem Elvar hitti fyrr í mánuðinum. Árlega síðan 1975 hafa þessi lið spilað leik sín á milli sem kallast The Battle of Brooklyn og leiðir LIU skólinn þá baráttu með 22 sigra gegn 16 frá St. Francis. LIU hefur unnið tvær síðust viðureignir.
Elvari hefur einnig verið boðið að skoða nokkra aðra skóla en það verður ekki öruggt fyrr en í mars þegar þeir geta tekið á móti honum.
Elvar Már er að spila sitt langbesta leiktímabil hérna á Fróni og fer því með afburðartölur í farteskinu til fundar við þjálfarana úti. Elvar er efstur allra íslenskra leikmanna í Dominosdeildinni í PER með 30,2 og þriðji í deildinni allri á eftir Mike Craion og Terrence Watson. Elvar leiðir Dominosdeildina í Win Shares með 1,432.



