spot_img
HomeFréttirEllefu stiga sigur ÍA á Akureyri

Ellefu stiga sigur ÍA á Akureyri

Það var ljóst á upphafsmínútum leik Þórs og ÍA um helgina að bæði liðin ætluðu að selja sig dýrt og létu svo sannarlega finna fyrir sér hvort um sig. Sérstaklega vöktu tilþrif hins unga og efnilega Tryggva Snæ Hlinasonar en hann varði hvert skotið á fætur öðru. Jafnt var á fyrstu tölum en í 2-2 og 4-4 þá náðu gestirnir þriggja stiga forskotið 4-7. Þegar um sex mínútur voru liðnar af fjórðungnum og staðan 9-10 kom góður kafli hjá Þór og þeir breyttu stöðunni í 18-12 þegar um tvær mínútur lifðu af leikhlutanum. Þá komu gestirnir með fínan sprett og minnkuðu muninn í 18-16 og þannig var staðan þegar annar leikhlutinn hófst.
 
 
Jafnræði var með liðunum fyrstu tvær mínúturnar en þegar fjórar mínútur voru liðnar af fjórðungnum var forskot Þórs 8 stig 30-22. Þá fóru í hönd hreint út sagt ótrúlegur kafli hjá Þór því það sem eftir lifði leikhlutans skoraði Þór ekki eitt einasta stig (nánar 6 mín og 40 sek) gegn þrettán stigum gestanna og þegar leikhlutinn var úti höfðu gestirnir náð fimm stiga forskoti 30-35. Það sem einna helst var Þór að falli á þessum sex mínútna kafla var allt og margir tapaðir boltar. En á sama tíma gengu hlutirnir upp hjá gestunum.
 
Fyrstu tvær mínútur þriðja leikhluta byrjuðu ágætlega en í stöðunni 34-40 fór í hönd annar ótrúlegur kafli Þórs þar sem liðið skoraði ekki körfu í rúmar tvær mínútur og gestirnir gengu á lagið. Þegar þriðji leikhlutinn var hálfnaður höfðu Skagamenn náð fjórtán stiga forskoti 34-48. Þá var eins og leikmenn Þórs hafi vaknað upp af værum blundi og þeir náðu að saxa á forskot gestanna og þegar fjórði leikhlutinn hófst var munurinn á liðunum átta sig 48-56.
 
Þórsarar byrjuðu síðasta fjórðunginn ágætlega og náðu enn frekar að saxa á muninn og þegar um þrjár mínútur lifðu leiks var munurinn á liðunum 4 stig 60-64. Þórsarar urðu fyrir því áfalli að Frisco fékk skurð á augabrún í baráttu í teignum og var að fara af velli og kom ekki meira við sögu. Þetta hafði slæm áhrif á liðið og þær þrjár mínútur sem eftir lifðu leiks skoraði Þór aðeins eitt stig gegn átta stigum gestanna. Ellefu stiga tap staðreynd og lokatölur leiksins 61-72.
 
Frisco Sandidge sem alla jafna hefur verið bestur hjá Þór hefur oftast átt betri dag. Hann skoraði 15 stig og tók 11 fráköst. Einar Ómar Eyjólfsson var stigahæstur Þórs með 17 stig og tók 5 fráköst. Segja má að Tryggvi Snær hafi verið senuþjófur dagsins en hann skoraði 9 stig tók 7 fráköst og var með 8 varin skot. Þá er ekki hægt að sleppa því að minnast á annan ungan og efnilegan leikmann sem lét til sín taka í dag þ.e. bakvörðurinn Sturla Elvarsson. Þessi ungi leikmaður sem er aðeins 16 ára gamall skoraði 7 stig í dag og tók 4 fráköst flott innkoma hjá þessu strák. Vic Ian var einnig með 7 stig Arnór Jónsson 4 og Orri Freyr Hjaltalín 2.
 
Hjá gestunum var Zachary Warren frábær skoraði körfur í öllum regnbogans litum samtals 26. Fannar Freyr Helgason var einnig mjög góður og var með 19 stig og 8 fráköst.
 
Umfjöllun/ Páll Jóhannesson
 
Mynd/ Sturla Elvarsson í leiknum með Þór gegn ÍA um helgina.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -