spot_img
HomeFréttirEllefu Njarðvíkursigrar í röð

Ellefu Njarðvíkursigrar í röð

23:15

{mosimage}

 

 

Að vanda hófst nágrannaslagur Keflavíkur og Njarðvíkur af miklum krafti en í lokin stóðu Njarðvíkingar uppi sem sigurvegarar 70-83 í Sláturhúsinu. Lítið var skorað á báða vegu og lokatölur leiksins voru 70-83 Njarðvík í vil og ljóst að varnir liðanna réðu för í leiknum. Óhætt er að segja að nokkrir af lykilmönnum Keflavíkur hafi ekki fundið fjölina í kvöld en þeir Magnús Gunnarsson og Gunnar Einarsson gerðu aðeins 11 stig samtals og oft hefur framlag þeirra verið ríkulegra. Hjá Njarðvík var stigaskorinu dreift vel á millum manna en stigahæstur Íslandsmeistaranna var Brenton Birmingham með 17 stig. Sebastian Hermanier dró vagninn í liði Keflavíkur en hann gerði 32 stig í leiknum og tók 11 fráköst. Nýji Bandaríkjamaðurinn í liði Keflavíkur, Tony Harris, stóð sig þokkalega og gerði 15 stig.

 

Upphafsleikhlutinn var hnífjafn en Brenton Birmingham opnaði leikinn með þriggja stiga körfu frammi fyrir fullu Sláturhúsinu. Keflvíkingar voru ekki lengi að jafna metin og bæði lið að spila þétta vörn og óhrædd við að fá á sig villur. Sigurður Þorsteinsson fór illa að ráði sínu í leikhlutanum og fékk í honum þrjár villur og varð frá að víkja og við það veiktist nokkuð teigurinn hjá Keflavík. Jeb Ivey kom Njarðvík yfir í 19-20 af vítalínunni og þar við sat í leikhlutanum.

 

Gunnar Einarsson kom með góða baráttu inn í annan leikhluta hjá Keflavík og Njarðvíkursóknin átti á köflum erfitt með að prjóna sig í gegnum Keflavíkurvörnina. Keflavík reyndi fyrir sér í svæðisvörn og maður á mann vörn og gekk það þolanlega. Sóknarleikur beggja liða var fremur stirðbusalegur og því var fyrri hálfleikurinn ekki mikið fyrir augað. Undir lok annars leikhluta tóku Njarðvíkingar góða rispu og náðu að komast 7 stigum yfir fyrir leikhlé 34-41.

 

 

{mosimage}

 

Aðeins þrír leikmenn skoruðu fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og þeirra fremstur var Hermanier með 18 stig en til samanburðar skoruðu átta leikmenn hjá Njarðvík í fyrri hálfleik og þar var Brenton með 13 stig.

 

Njarðvíkingar réðu lögum og lofum í þriðja leikhluta og juku forystu sína jafnt og þétt. Í stöðunni 36-51 fyrir Njarðvík setti Gunnar Einarsson niður þriggja stiga körfu en þeir grænu létu það ekki á sig fá og fóru með 11 stiga forystu inn í fjórða og síðasta leikhlutann, 53-64.

 

Keflvíkingar voru aldrei langt undan í loka leikhlutanum. Framan af var munurinn í kringum tíu stig en þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka gerðu Njarðvíkingar fimm stig í röð og þriggja stiga karfa frá Guðmundi Jónssyni breytti stöðunni í 60-75 og eftir það komust Keflvíkingar ekki aftur inn í leikinn. Lokatölur voru eins og fyrr greinir 70-83 Njarðvíkingum í vil.

 

Njarðvíkingar eru á toppi deildarinnar með 32 stig en Keflavík er í 5. sæti deildarinnar með 20 stig. Sigurinn í kvöld var sá ellefti í röðinni hjá Njarðvíkingum og eru þeir á feikna flugi um þessar mundir. Stórleikur fer svo fram í Ljónagryfjunni á mánudag þegar Njarðvíkingar taka á móti KR. Keflavík leikur næst gegn Hamar/Selfoss á sunnudag í Hveragerði.

 

Gangur leiksins

7-7,12-11,19-20

26-25,32-35,34-41

36-51,47-55,53-64

60-68,60-75,70-83

 

Tölfræði leiksins

 

Frétt og myndir af www.vf.is

Sögumoli: Sigurinn í kvöld var fyrsti deildarsigur Einars Árna Jóhannssonar í Sláturhúsinu með Njarðvíkurliðið.

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -