KR lá naumlega gegn Njarðvík í fjórðu viðureign liðann í undanúrslitum Domino´s-deildar karla í gærkvöldi. Staðan í einvíginu er 2-2 en KR lék í gærkvöldi án Pavels Ermolinski sem fékk tak aftan í kálfa í upphitun fyrir leik.
Á heimasíðu KR segir að óvíst sé með þátttöku hans í oddaleiknum gegn Njarðvík sem fram fer í DHL-Höllinni annað kvöld.
Stórt skarð var vissulega höggvið í skrað KR í gær í fjarveru Pavels sem í þriðja leik var útnefndur Lykil-maður leiksins hjá okkur í stórsigri KR þegar Íslands- og bikarmeistarararnir úr vesturbænum tóku 2-1 forystu í einvíginu.
KR-ingar greina frá því að í sameiningu hafi Finnur Freyr þjálfari liðsins og Bjartmar sjúkraþjálfari tekið þá ákvörðun með Pavel að hann skyldi hvíla í leiknum í gær.
„Hann verður í sjúkraþjálfun í dag og á morgun sem vonandi gerir hann leikfæran annað kvöld en það er enn óvíst. Þegar á móti blæs stíga aðrir upp og það þurfa hreinlega allir að eiga sinn besta leik til að tryggja KR sæti í úrslitum gegn Haukum,“ segir á heimasíðu KR-inga.
Mynd/ Bára Dröfn