spot_img
HomeFréttirEkki sjálfgefið að Keflvíkingur komi inn í dæmið

Ekki sjálfgefið að Keflvíkingur komi inn í dæmið

10:32
{mosimage}

(Hver tekur við Keflvíkingum?)

Kunnáttumenn í Keflavík sitja nú á rökstólum við að finna eftirmann Sigurðar Ingimundarsonar sem nýverið réði sig til eins árs sem þjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Solna Vikings. Hvalreki á fjörur Svía en búsifjar í Bítlabænum. Karfan.is ræddi við Þorstein Lár Ragnarsson, nýskipaðan framkvæmdastjóra Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, og sagði hann að félagið vildi ráða góðan mann sem hefði reynslu af því að móta leikmenn frá grunni enda væri Keflavíkurliðið með ungan og efnilegan hóp.

,,Besti þjálfari landsins er á förum frá okkur og óskum við honum velfarnaðar á nýjum vettvangi, það var reyndar kominn tími á að Sigurður færi að gera eitthvað nýtt enda er hann búinn að toppa á Íslandi,“ sagði Þorsteinn Lár en Keflvíkingar deyja ekki ráðalausir og hafa kallað nokkra valinkunna menn í nefndarstörf.

,,Við höfum sett saman ráð af rótgrónum Keflvíkingum sem eru að fara yfir þessi mál, þetta eru góðir menn sem hafa vit á þessu og eru að vinna að því að koma með tillögur á þeim þjálfurum sem koma til greina í starfið. Við stefnum ekkert endilega að því að ráða innanbúðarmann en að sjálfsögðu kemur það til greina. Við þurfum mann sem er góður í því að móta leikmenn frá grunni enda er Keflavík með ungt lið,“ sagði Þorsteinn Lár og bætti við að næsti þjálfari Keflavíkurliðsins yrði að vera þjálfari sem leikmenn bæru virðingu fyrir.

,,Það er ekki sjálfgefið að einhver úr Keflavík komi inn í dæmið, það getur vel verið einhver utanfrá,“ sagði Þorsteinn og aðspurður um möguleikann á erlendum þjálfara sagði hann: ,,Það hefur ekki neitt verið afskrifað en það er mjög ólíklegt að það verði erlendur þjálfari hjá okkur. Það er óraunhæft í dag en maður á aldrei að segja aldrei, en samt er sá kostur mjög ólíklegur,“ sagði Þorsteinn Lár og greindi ennfremur frá því að Sigurður Ingimundarson myndi halda úti æfingum hjá Keflavíkurliðinu á meðan félagið leitaði að nýjum þjálfara.

,,Það er ákveðin synd í brotthvarfi Sigurðar sem var að vinna í mörgum málum hjá félaginu en hann mun áfram reyna eitthvað að sinna okkur þó hann verði í Svíþjóð. Keflavík vill ráða nýjan þjálfara sem fyrst en víst Sigurður er reiðubúinn til þess að vera aðeins áfram með liðið þá þurfum við ekkert endilega að flýta okkur. Ráðið getur þess í stað unnið sína vinnu og í kjölfarið skoðum við alla ákjósanlega kosti og klárum bara þessi mál þegar að því kemur,“ sagði Þorsteinn Lár Ragnarsson nýráðinn framkvæmdastjóri Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

Þorsteinn Lár er Keflvíkingum ekki ókunnur en hann hefur m.a. haldið úti netþáttunum Kef City TV.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -