spot_img
HomeFréttirEkki mikill munur á körfuboltanum í Evrópu og NBA

Ekki mikill munur á körfuboltanum í Evrópu og NBA

7:30

{mosimage}

„ÉG er mjög ánægður með lífið og tilveruna hér í Róm og það er mikill hugur í forráðamönnum liðsins,“ segir íslenski landsliðsmaðurinn Jón Arnór Stefánsson sem leikur lykilhlutverk í hjá körfuboltaliðinu Lottomatica Róma í efstu deild á Ítalíu. Körfubolti í Evrópu hefur á undanförnum arum sótt í sig veðrið og er ítalska deildin talin sú næststerkasta á eftir þeirri spænsku. Jón hefur ágætan samanburð því hann var um tíma leikmaður Valencia á Spáni. Lottomatica Róma hefur byrjað leiktíðina ágætlega og fær Jón Arnór mun meiri ábyrgð í sóknar- og varnarleik liðsins. Karfan.is birtir viðtal Morgunblaðsins við Jón Arnór Stefánsson.

 

 

Jón kom til Róma um mitt tímabil í fyrra eftir skamma dvöl hjá Valencia á Spáni. Hann lék vel með liðinu það sem eftir var leiktíðar þrátt fyrir að hafa glímt við ýmis meiðsli á keppnistímabilinu. Jón segir að ýmislegt hafi gerst hjá félaginu í sumar og hann hafi fengið fleiri tækifæri en hann átti von á.  

„Það er einn bandarískur leikmaður í okkar liði í keppnisbanni vegna lyfjamáls sem kom upp sl. vor. Hann verður því ekki með okkur fyrstu tvo mánuðina á keppnistímabilinu og ég nýt góðs af því þar sem hann er einnig skotbakvörður,“ sagði Jón en leikmaðurinn sem um ræðir heitir David Hawkins. 

Stórleikir í Evrópukeppninni

Þegar Morgunblaðið ræddi við Jón var hann var á leið í útileik gegn Legea Scafati sem er félag með aðsetur rétt utan við borgina Napólí. Sá leikur endaði með sögulegum hætti en dómarar leiksins flautuðu leikinn af þegar 7 sekúndur voru eftir vegna óláta á  áhorfendapöllunum. Róma var dæmdur sigur, 70:67, og var Jón Arnór stigahæsti  leikmaður liðsins með 18 stig og 8 fráköst. Hann segir að mikil ferðalög fylgi keppni í efstu deild á Ítalíu og að auki er Róma með í Evrópukeppninni, Eurolegue. Þar er liðið í C-riðli og liðin sem eru þeim riðli eru ekki af verri endanum, Barcelona frá Spáni, Panathinaikos frá Grikklandi, Partizan Belgrad, Fenerbache frá Tyrklandi, Real Madridfrá Spáni, Brose Baskets frá Þýskalandi, og Chorale Roanne frá Frakklandi. 

„Það er flogið í flesta leiki hér á Ítalíu en í þetta skiptið erum við í rútu enda er ferðalagið ekki langt, kannski 2½ tími. Við förum alltaf daginn fyrir leik á keppnisstað og náum oft að taka eina létta æfingu fyrir útileikina. Ég kvarta ekki og þetta er bara hluti af því að vera atvinnumaður í körfubolta. Það verður nóg af spennandi verkefnum í vetur í Evrópukeppninni og einnig í ítölsku deildinni.“  

Jón Arnór lék með Napólí veturinn 2005-2006 og þekkir hann því ítölsku deildina mjög vel. Hann varð bikarmeistari með liðinu en það vildi svo skemmtilega til að Lottomatica Róma lék til úrslita gegn Napólí. 

Bilið að minnka

Hann segir að bilið á milli liða í Evrópu og liða í bandarísku NBAdeildinni sé alltaf að minnka. Veturinn 2003-2004 var hann á mála hjá NBA-liðinu Dallas Mavericks en hann lék aðeins æfingaleiki með liðinu sumarið 2003 en fékk ekki tækifæri með aðalliði  Dallas. Jón Arnór skoraði 19 stig í tapleik gegn NBA-liðinu Toronto Raptors á dögunum þegar liðið var á ferð í Evrópu ásamt þremur öðrum liðum úr NBA-deildinni. Hann er hinsvegar lítið að velta því fyrir sér hvort hann komist aftur í NBA-deildina.  

{mosimage}

„Það eru fleiri betri leikmenn í NBA-deildinni og breiddin er því meiri í liðunum þar. Munurinn á liðum í Evrópu og NBA er ekkert rosalega mikill. Við kunnum alveg að spila körfubolta í Evrópu en breiddin er meiri í NBA og það vilja að sjálfsögðu allir fá tækifærií þeirri deild. Leikurinn gegn Toronto var í raun bara eins og hver annar leikur. Mér leið allavega þannig og ég held að ég hafi þroskast og bætt mig mikið sem leikmaður frá því ég var í herbúðum Dallas.“  

Hefur þú orðið var við áhuga liða í NBA-deildinni á  undanförnum vikum og mánuðum?

„Ég veit svo sem lítið um þessi mál. Umboðsmaður minn er með mörg járn í eldinum þar sem að hann hefur verið í viðræðum við Lottomatica Róma um nýjan samning. Samningur minn við félagið rennur út í lok leiktíðar og ég hef mjög mikinn áhuga á því að vera áfram í þessu liði. Við ætlum að sjá hvað þeir ætla að bjóða og síðan fer þetta í eitthvert ferli en ég á ekki von á því að klára þessi mál fyrr en snemma á næsta ári. Ég veit að það eru útsendarar frá flestum liðum í NBA á flestum leikjum í Evrópukeppninni og þeir hafa eflaust margir séð leikinn gegn Toronto. Ég er samt sem áður ekkert að velta þessu fyrir mér.“ 

Vildi sýna hvað í mér í byggi

Jón Arnór lék ekki með íslenska landsliðinu í verkefnum sumarsins en hann tók þá  ákvörðun að mæta til leiks í undirbúningstímabilið hjá Lottomatica Róma og styrka stöðusína hjá liðinu. Staða landsliðsins var með þeim hætti að Ísland átti ekki lengur  möguleika á að komast upp í A-deild og af þeim sökum kaus Jón Arnór að fara til Ítalíu. 

Það var að mínu mati mjög mikilvægt að mæta á réttum tíma á undirbúningstímabilið. Ég kom um mitt tímabil í fyrra til liðsins eftir skamma dvöl hjá Valencia á Spáni. Ég vildi því sýna hvað í mér byggi og það hefur tekist vel. Sjálfstraustið er í botni. Ég er laus við meiðsli og þjálfarinn hefur lagt mikla ábyrgð á mínar herðar. Hann hefur trú á mér. Ég  tók þá ákvörðun í sumar að æfa frekar með mínu félagsliði og treysta stöðu mína í harðri samkeppni, í stað þess að taka þátt í landsliðsverkefnum sumarsins. Það var að sjálfsögðu erfið ákvörðun, að sleppa landsliðsverkefnunum, en þar sem landsliðið átti ekki möguleika á að komast í A-deild Evrópumótsins taldi ég rétt að fara og standa mig í „vinnunni“.

{mosimage}

 Margir þekktir kappar

Lið Lottomatica Róma er vel skipað í ár og margir af þekktustu körfuboltamönnum  Evrópu eru í liðinu í ár. Má þar nefna Gregor Fucka, sem er 2,15 metra hár miðherji.Fucka hefur leikið með mörgum af sterkustu liðum Evrópu og var hann m.a. valinn bestileikmaður úrslitakeppninnar á Ítalíu vorið 1999 sem leikmaður Stefanel Mílanó. Einn þekktasti leikmaður Dana, Christian Drejer, er liðsfélagi Jóns og Erazem Lorbek frá Slóveníu er einnig í ítalska liðinu. Indiana Pacers valdi Lorbek í háskólavalinu 2005 og segir Larry Bird, forseti félagsins, að menn þar á bæ fylgist vel með Lorbek og er líklegt að hinn 2,11 metra hái miðherji verði leikmaður Pacers á allra næstu misserum. 

„Krafan er einföld. Menn ætla sér að vinna titla í vetur og miðað við þá staðreynd að það vantar nokkra leikmenn í okkar lið vegna meiðsla og leikbanns er hópurinn í ár mun sterkari en í fyrra.“  

Totti og félagar mæta á leikina

Umgjörð á heimaleikjum Róma er góð að sögn Jóns Arnórs. Um 11.000 áhorfendur komast fyrir í keppnishöllinni í Róm. Knattspyrnulið Rómarborgar, Róma og Lazio, eru erkifjendur en það sem sameinar leikmenn beggja liða er Lottomatica Róma. „Totti og félagar hans úr Róma eru oft á leikjum okkar og það eru einnig leikmenn frá Lazio sem mæta á heimaleikina. Það er gríðarleg stemning á leikjunum en vissulega náum við ekki alltaf að fylla höllina en gegn stóru liðunum er alltaf fullt. Það er stefnt að því að úrslitaleikirnir í Eurolegue fari fram í Róm árið 2010 og það er því margt jákvætt í gangi hjá félaginu,“ sagði Jón Arnór Stefánsson. 

2000. Íslandsmeistari með KR, aðeins 17 ára gamall.2001. Lék með KR og var valinn besti nýliðinn í úrvalsdeildinni.

2002. Lék með KR og var valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar.

2002-2003. Lék með þýska liðinu Trier í efstu deild. Þar lék hann 24 deildarleiki og skoraði 13,5 stig að meðaltali á 29,7 mínútum. Hann var einnig með 2,9 fráköst, 2,8 stoðsendingar og 1,4 stolna bolta.

2003-2004. Var valinn í háskólavalinu af Dallas Mavericks. Þar með var hann annar Íslendingurinn, á eftir Pétri Guðmundssyni, til að komast á mála hjá NBA-liði. Hann fékk ekki tækifæri með aðalliðinu og fór hann frá félaginu vorið 2004.

2004-2005. Jón lék með Dynamo St. Pétursborg í Rússlandi. Liðið sigraði í FIBA Evrópukeppninni og er Jón fyrsti íslenski leikmaðurinn sem fagnar slíkum titli.

2005-2006. Ítalska úrvalsdeildarliðið Napólí samdi við Jón og hann varð bikarmeistari með liðinu og liðið lék í undanúrslitum deildarkeppninnar.

2006-2007. Jón samdi til þriggja ára við spænska félagið Valencia. Hann fékk fá tækifærimeð liðinu og í febrúar 2007 fékk hann sig lausan og gekk í raðir Lottomatica Róma.

2007-2008. Jón er samningsbundinn Rómverjum fram til vorsins 2008 en hann er í samningaviðræðum við félagið um nýjan samning. 

Morgunblaðið – Sigurður Elvar Þórólfsson

Myndir: www.virtusroma.it

Fréttir
- Auglýsing -