spot_img
HomeFréttirEkki gefin tomma eftir í Síðuskóla

Ekki gefin tomma eftir í Síðuskóla

,,Já, óþarflega tæpt” sagði Bjarki Ármann Oddsson í leikslok og bætti við ,,FSU er bara þannig lið að þeir gefast aldrei upp. Ég og Erik erum svipaðir þjálfarar að þvi leyti að við viljum bara 100% frá okkar leikmönnum út allar mínúturnar og gefumst aldrei upp”. Það má einmitt segja að hetjuleg barátta beggja liða allan leikinn hafi verið saga leiksins. Hvorugt liðið gaf tommu eftir en að lokum voru það þó heimamenn sem höfðu betur 87 – 83 í æsi spennandi leik norðan heiða.
 
 
Það leit þó ekki bærilega fyrir Þórsara í upphafi leiks þar sem þeir mættu algjörlega með buxurnar á hælunum. Misstu knöttinn gjarnan klaufalega og misnotuðu skot sem þeir áttu að nýta undir venjulegum kringumstæðum. Gestirnir aftur á móti mættu vel stemmdir til leiks og virtust ætla hreinlega að keyra yfir strákanna í 1 leikhluta. Gestirnir settu hvert skotið niður á fætur öðru og voru skyndilega komnir með þægilega forystu, 11 – 26.
 
,,Ég lét einhver ljót orð flakka en það var bara til að vekja strákana” rifjaði Bjarki Ármann þjálfari Þórs upp ræðu sem hann hélt á milli 1. og 2. leikhluta. Það fór ekki framhjá neinum áhorfanda í Síðuskóla að Bjarki var ekki par sáttur við spilamennsku sinna manna. Svo virðist sem leikmenn Þórs hafi vaknað við hörku ræðu þjálfarans og mættu grimmari til leiks í 2. leikhluta. Gestirnir héldu þó ágætis forskoti á heimamenn, þá sérstaklega fyrir tilstuðlan Ara Gylfasonar.
 
,,Það er engin vafi á að hann [Ari Gylfason] er frábær skotmaður” sagði Erik Olson þjálfari FSU um Ara Gylfason í leikslok. Ari spilaði frábærlega í fyrri hálfleik og setti niður 18 stig og réðu heimamenn afar illa við hann fyrir aftan þriggja stiga línuna en Ari setti niður 4 af sínum 7 þriggja stiga skotum. Ari ásamt Collin Pryor voru lykillinn af 6 stiga forystu gestanna í hálfleik, 35 – 41. Þórsarar aftur á móti máttu þó prísa sig sæla fyrir að vera ekki í verri málum í hálfleik.
 
,,Við vissum að við gætum gert miklu betur. Við vorum samt alltaf inn í leiknum. Það voru sex stig þegar við fórum inn i hálfleik. Miða við hversu illa við vorum að spila, vissum við að við gætum léttilega unnið þetta, sem við svo gerðum” rifjaði Elías Kristjánsson upp. Þá má segja að heimamenn vissu að þeir gætu mun betur en þeir gerðu í fyrri hálfleik og það tók þá ekki langan tíma til að sanna mál sitt. Þórsarar byrjuðu siðari hálfleik með látum og tóku strax á 10 – 2 sprett og snéru skyndilega stöðunni úr 35 – 41 í 45 – 43. Vörn heimamanna fór að smella saman á sama tima og þeir fóru að taka skynsamari ákvarðanir í sóknarleiknum. Að sjálfssögðu leist Erik lítið á stöðu mála og tók fljótt leikhlé.
 
Leikhlé Eriks virtist virka ágætlega og náðu gestir fljótlega að jafna sig á hamagangi heimamanna. Eftir því sem leið þó á siðari hálfleik náðu heimamenn þéttara taki á leiknum. Gestunum gekk illa að nýta skot sín en Ara Gylfassyni gekk illa að finna miðið sem og Collin Pryor átti í stökustu vandræðum með að finna leiðir að körfunni gegn Jarrell Crayton.
,,Við héldum að skotin myndu halda áfram að detta niður og hættum þvi að klára sókninar vel og keyra að körfunni” benti Erik Olson þjálfari FSU á hvað hefði misfarist í síðari hálfleik. Það sem gekk upp í fyrri háfleik fyrir gestina gekk alls ekki upp í síðari hálfleik. Gestirnir hreinlega hættu að gera það sem þeir höfðu gert vel og voru í ströggli. Hins vegar voru Þórsarar í ágætis málum og náðu að byggja upp ágætis forystu í 4. og síðasta leikhluta.
 
Það var ekki síst barátta og áræðni fyrirliðans, Elías Kristjánssonar sem keyrði heimamenn áfram í lokaleikhlutanum. Ekki einungis setti Elías mikilvæga þrista fyrir heimamenn heldur sýndi hann fyrirmyndar varnarleik eins og og Bjarki Oddsson þjálfari benti á ,,Elías Kristjánsson kveikti aldeilis í þeim þarna í vörninni og hans framlag kveikti í strákunum. Hann tók á sig leiðtogahlutverkið, öskraði á þá í vörninni og náði góðum stoppum og þá duttu strákarnir í gang”.
 
Þegar 4:19 voru til leiksloka stefndi allt í öruggan heimasigur. Collinn Pryor var sestur á bekkinn með 5 villur og heimamenn leiddu leikinn, 71:64. Gestirnir frá Selfoss neituðu þó að gefast upp og upphófust skemmtilegar lokamínútur þar sem bæði lið börðust eins og grenjandi ljón. Smá saman náðu gestirnir að minnka forskot strákanna okkar niður en Ari Gylfason og Hlynur Hreinsson fóru hreinlega á kostum á lokamínútunum og settu hvert skotið niður. Það fór um afar marga áhorfendur í Síðuskóla þegar þeir urðu vitni að gestunum setja hvert skotið niður, og það oft í erfiðum aðstæðum.
 
Á meðan að gestirnir settu sín skot niður, ströggluðu strákarnir okkar enn og aftur á vitalínunni. Vítaskotin hafa verið akkilesarhæll strákanna sem af er vetri og leikurinn í kvöld var enginn undantekning, en nýtingin á vítaskotum var einungis 58%. Vítaskotin hefðu hæglega geta komið í bakið á heimamönnum í kvöld. Barátta Þórsara vóg upp brenndu vítaskotin, upp að vissu marki og kom í veg fyrir að gestirnir gætu nýtt sér misnotuðu vítaskotin. ,,Þeir hreinlega börðust meir heldur en við” sagði Erik Olson og það sýndi sig í lok leiks þegar heimamenn hirtu fráköstin af misnotuðu vítaskotunum sem gáfu þeim annan séns í sókninni. En heimamenn fengu alls 8 vítaskot á síðustu 40 sekúndunum en nýttu einungis 4 af þeim.
 
Það var ekki fyrr en á loka sekúndunum sem Þórsarar náðu að innsigla sigurinn þegar Elías Kristjánsson setti niður bæði sín skot og þvi gátu heimamenn fagnað 87 – 83 sigri.
Það má með sanni segja að leikurinn í kvöld hafi verið fjörlegur og bæði lið reyndu allt sem þau gátu til að taka öll stigin heim. Rétt eins og í fyrri viðureign þessara liða var það bekkurinn sem skipti sköpum. ,,Við fengum einfaldlega ekki nógu mikið framlag frá bekknum okkar sem og aðrir voru ekki að skila því framlagi sem þeir eru vanir að skila” benti Erik Olson á. Það má benda að öll stig gestanna komu frá byrjunarliðinu á meðan bekkurinn frá heimamönnum skilaði 11 stigum.
 
Jafnframt voru yfirburðir heimamanna inn í teignum afgerandi. Þórsarar skoruðu hvorki fleiri né færri en 44 stig inn í teignum gegn 28 stigum gestanna. Þórsarar með Jarrell Crayton í fararbroddi áttu hreinlega teiginn. Jarrell skoraði 28 stig og hirti 14 fráköst. Jafnframt var Crayton öflugur í vörninni og hægði á Collinn Pryor sem skoraði ,,einungis” 23 stig.
Það má þó ekki gleyma Elíasi Kristjánssyni sem var algjör lykilmaður í liði heimamanna, bæði varnarlega sem og sóknarlega. Eins og áður nefndi var Elías sá sem kveikti í varnarleik heimamanna en sóknarlega setti hann niður 19 stig. Einnig voru Ólafur Aron og Sindri Davíðsson öflugir í liði heimamanna.
 
Í liði gestanna var Ari Gylfason sá sem leiddi sóknarleik gestanna með 26 stig. Collinn Pryor var lengi vel að spila vel með 23 stig og 21 frákast, en hann átti þó í vandræðum með Jarrell Crayton og sú barátta tók sinn toll. Síðast en ekki síst verður að nefna Hlyn Hreinsson sem hélt FSU inn í leiknum ásamt Ara undir lok leiksins.
 
Heimamenn geta verið sælir með sigurinn, enda stigin tvö afar mikilvæg í komandi baráttu. Það er þó ljóst að baráttan um sæti í úrslitakeppninni er gríðarlega spennandi og bæði lið verða í baráttunni til loka.
 
Umfjöllun/ Sölmundur Karl Pálsson
 
Að lokum skulum við heyra hvað Elías Kristjánsson, Bjarki Ármann Oddsson og Erik Olson höfðu að segja í leikslok.
 
Erik Olson
 
Bjarki og Elías
 
  
Fréttir
- Auglýsing -