spot_img
HomeFréttirEkkert vanmat og Njarðvíkingar rassskelltir

Ekkert vanmat og Njarðvíkingar rassskelltir

Grindavík sigldi lygnan sjó í kvöld gegn Njarðvík þegar þeir sigruðu þá grænklæddu nokkuð auðveldlega með 94 stigum gegn 67. Leikurinn var einstefna nánast frá fyrstu mínútu og áttu Njarðvíkingar aldrei viðreisnar von gegn sterkri vörn heimamanna.
 
Flestir spáðu eins og fór í kvöld en einhverjir höfðu jafnvel bakvið eyrað að vanmat myndi verða Grindvíkingum einhver hindrun gegn Njarðvík. En þetta kvöldið var ekkert svoleiðis. Vörn heimamanna var gríðarlega sterk og að sama skapi sóknarleikur Njarðvíkinga eins og þeir væru nýkomnir á Valsmótið í haustfíling. J. Bullock byrjaði leikinn af krafti sem endra nær og þrátt fyrir að Páll Kristinsson hafi límt lúkur sínar í andlitið á honum sallaði hann stigunum niður.
 
Í hálfleik voru það 12 stig sem skildu liðin og strax í upphafi þess seinni var munurinn fljótlega komin í þessi 20 stig og jókst hann fram að lokum leiks og endaði leikurinn með 94:67 nokkuð auðveldum sigri heimamanna. Þar var vissulega varnarleikur heimamanna sem skóp þennan sigur. Grimmir á alla bolta og öll skot gestanna voru áreitt. Njarðvíkingar virtust vera búnir að tapa þessum leik fyrirfram. Þessir ungu peyjar reyndu svo sem hvað þeir gátu en það má ekki gleyma því að megnið af hópnum er í drengjaflokki og þeir eiga vissulega eftir að þroskast. Annað sló hinsvegar undirritaðan að þeir erlendu leikmenn sem spiluðu í grænu virðast vera komnir með hugann vestur yfir haf. Gáfu lítið af sér og virðast einfaldlega vilja klára þetta á einn veg eða annan. Echols sem hefur verið nokkuð grimmur í skorun skilaði jafngóðu varnarhlutverki og hann hefur gert hingað til, eða engu og mætti segja að hann sé slakasti varnarmaður landsins í dag, og þá tel ég með undirritaðan!
 
Það verður ekki búist við öðru en að Grindvíkingar klári þessa seríu í næsta leik, þeir eru töluvert sterkari á flestum sviðum leiksins og það sem Njarðvíkingar þurfa er meira frá sínum erlendu leikmönnum en ég sé það ekki gerast úr þessu.
 
Heildarskor:
 
Grindavík: J’Nathan Bullock 19/10 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 17/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 13/4 fráköst, Ryan Pettinella 10, Giordan Watson 9/12 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 9/7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7/6 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4, Ólafur Ólafsson 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Ármann Vilbergsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0.
 
Njarðvík: Travis Holmes 20/5 fráköst, Cameron Echols 18/4 fráköst, Elvar Már Friðriksson 9, Páll Kristinsson 8/7 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 3, Hjörtur Hrafn Einarsson 3, Jens Valgeir Óskarsson 2, Maciej Stanislav Baginski 2, Oddur Birnir Pétursson 2/5 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0, Ólafur Helgi Jónsson 0.
 
 
Umfjöllun/ [email protected] 
Fréttir
- Auglýsing -