Njarðvík lagði Hauka í Ólafssal í kvöld í þriðja leik úrslita Bónus deildar kvenna, 93-95.
Með sigrinum hélt Njarðvík lífi í úrslitunum, en staðan eftir leik er 2-1 og þurfa Haukar því enn aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Fyrir leik
Undanúrslit og úrslit Bónus deildar kvenna höfðu fram að kvöldinu í kvöld verið nokkuð ójöfn. Þar sem bæði Njarðvík og Haukar sópuðu mótherjum sínum í undanúrslitum og þá leit allt út fyrir að Haukar myndu sópa úrslitaseríunni.
Haukar unnið átta leiki í röð fyrir leik kvöldsins og þó þessir fyrstu tveir sigrar einvígis þeirra gegn Njarðvík hafi ekki verið algjört rúst, þá má segja að þeir hafi verið nokkuð öruggir.
Gangur leiks
Gestirnir úr Njarðvík byrja leik kvöldsins betur og eru snöggar að koma forystu sinni í tveggja stafa tölu, 7-17. Með tveimur þristum frá Rósu Björk og nokkrum auðveldum stigum frá Lore Devos ná heimakonur að halda leiknum jöfnum og er allt í járnum að fyrsta fjórðung loknum, 27-27. Aftur nær Njarðvík að komast á flug í upphafi annars leikhlutans. Opna fjórðunginn á 0-17 áhlaupi. Því fylgir Njarðvík vel á eftir og loka hálfleiknum nokkuð sterkt, 13 stigum yfir, 40-53.
Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Lore Devos með 13 stig á meðan Hulda Agnarsdóttir og Brittany Dinkins voru með 12 stig hvor fyrir Njarðvík.
Miklu betri orka í Haukum í upphafi seinni hálfleiksins og eru þær snöggar að skera forskot Njarðvíkur niður í 6 stig á fyrstu tveimur mínútum þriðja leikhlutans. Í beinu framhaldi fær leikmaður þeirra Diamond Battles dæmda á sig klaufalega óíþróttamannslega villu og þarf í framhaldi að yfirgefa völlinn þar sem hún hafði fengið dæmda á sig tæknivillu fyrir tuð í fyrri hálfleiknum. Það er var þó ekki þar með sagt að Njarðvík tæki leikinn yfir. Haukar gerðu vel að halda pressunni á Njarðvík og er munurinn aðeins fjögur stig fyrir lokaleikhlutann, 71-75.
Haukar ná svo að jafna leikinn með þrist frá Lore Devos eftir rúmlega tveggja mínútna leik í þeim fjórða, 77-77. Í framhaldi skiptast liðin í nokkur skipti á forystunni og þegar fimm mínútur eru eftir leiða Haukar með einu, 83-82. Leikurinn hélst svo jafn fram á lokamínúturnar.
Undir lokin fá Haukar nokkur tækifæri til þess að stela sigrinum. Allt kemur þó fyrir ekki og fer Njarðvík að lokum með tveggja stiga sigur af hólmi, 93-95.
Atkvæðamestar
Fyrir Njarðvík voru atkvæðamestar Brittany Dinkins með 24 stig, 6 fráköst, 9 stoðsendingar, Emilie Hesseldal með 12 stig, 20 fráköst og Paulina Hersler með 22 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Þeim næst kom Krista Gló Magnúsdóttir með 14 stig, en nokkur þeirra voru sett á ögurstundu fyrir lið Njarðvíkur.
Best í liði Hauka var Lore Devos með 35 stig og 11 fráköst. Henni næst var Diamond Battles með 16 stig og 4 stoðsendingar.
Kjarninn
Njarðvík leysti pressu Hauka miklu betur í leik kvöldsins heldur en þær höfðu áður gert í einvíginu. Vissulega lentu þær í einhver skipti í vandræðum með að koma boltanum upp líkt og áður, en það var ekki eins og í hin skiptin, þar sem það gekk betur hjá þeim, náðu að setja auðveld stig og refsa fyrir oft á tíðum glæfralegan varnarleik heimakvenna.
Það var líka bara eins og Haukaliðið væri alltof gírað fyrir þennan leik. Komust ekki í gang sóknarlega, áttu erfitt varnarmegin og fengu alltof fáa lykilleikmenn sína í takt við leikinn. Hvort það var pressa frá fullu húsi, Íslandsmeistarabikarnum sem kominn var í hús eða örvænting Njarðvíkur (sem var mikil) sem olli því skal fá að liggja á milli hluta.
Hvað svo?
Með sigrinum hélt Njarðvík sér á lífi í úrslitaeinvíginu. Staðan er þó 2-1 og geta Haukar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í næsta leik, sem fram fer í IceMar höllinni komandi laugardag 10. maí.



