spot_img
HomeFréttirEkkert ákveðið varðandi næsta tímabil

Ekkert ákveðið varðandi næsta tímabil

 
Helgi Magnússon er kominn í sumarfrí frá sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik eftir að Solna lá 3-2 gegn Norrköping í undanúrslitum deildarinnar. Karfan.is náði í skottið á Helga áður en hann skellti sér inn í sumarið en hann sagði ekkert ákveðið ennþá varðandi næstu leiktíð hjá sér.
Solna mætti Norrköping í oddaleik þar sem Solna sá undir hælana á gestgjöfum sínum á endasprett leiksins:
 
,,Oddaleikurinn var jafn framan af en undir lok fyrri hálfleiks komast þeir 8 stigum yfir vegna klaufalegra mistaka okkar. Við byrjuðum reyndar seinni hálfleik sterkt og náðum muninum strax niður í 3 stig en þá var eins og við hefðum sprungið. Ekkert gekk sóknarlega og vörnin engan veginn nægilega sterk og eins og góðu liði sæmir þá nýttu þeir sér það til hins ýtrasta. Held að þeir hafi unnið síðasta korterið með 30 stigum. Við lentum reyndar í því að fyrirliðinn okkar meiddist í leik 3 og spilaði ekkert meira í seríunni og svo veiktist centerinn okkar daginn fyrir oddaleikinn og var ekki sjón að sjá í leiknum. En þetta er bara huti af sportinu og ekkert við þessu að gera svo sem,“ sagði Helgi en Solna mátti þola töluverðar breytingar á hópnum sínum þetta tímabilið.
 
,,Ég persónulega trúði því einhvern veginn alltaf að við værum að fara að vinna þessa deild en maður fann það alveg gegn Norrköping að þeir voru mun betur æfðir sem lið en við. Þeir voru með allt sitt á 100% hreinu á meðan við áttum það til að vera óöruggir og hikandi í okkar aðgerðum. Ég vil meina að 3. þjálfarabreytingin hafa einfaldlega komið of seint. Þetta er góður þjálfari og klár kall sem var með okkur undir lokin en stundum á meðan hann var reyna að setja eitthvað af sínum pælingum inn þá við vorum stundum fastir í því sem við vorum að gera fyrrihluta móts. Miðað við mannskap er ég mjög ósáttur að vera ekki að spila ennþá, en ef við lítum á allan veturinn þá er þetta kannski ekki svo slæmur árangur,“ sagði Helgi en verður íslenskt sumar hjá honum?
 
,,Nei það verður sænskt sumar! Ég er með 50% vinnu hérna úti og kærastan mín er með flotta vinnu hjá sænska seðlabankanum og á samning hjá Djurgarden í fótboltanum þannig við verðum hér í mest allt sumar. Hvað næsta season varðar þá er ekkert ákveðið ennþá. Solna hafa gefið það til kynna að þeir vilji halda mér en þetta kemur allt í ljós á næstu vikum.“
 
Fréttir
- Auglýsing -