12:00
{mosimage}
(Eiríkur Önundarson leikmaður ÍR)
Reynslan hjá Eiríki Önundarsyni gæti vegið þungt í dag þegar ÍR-ingar heimsækja KR í DHL-Höllina kl. 16:00 í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar. Eiríkur hefur gert 7,3 stig að meðaltali í leik fyrir ÍR í vetur en hann er leikjahæsti leikmaður liðsins í úrvalsdeild og er á sínu þrettánda ári í úrvalsdeild. Merkilegt nokk þá hefur Eiríkur leikið alla sína úrvalsdeildartíð hjá ÍR nema eina leiktíð en það var leiktíðina 1998-1999 þegar hann var á mála hjá KR.
,,Það eru allir spenntir enda er tíminn kominn og allir í sínu toppformi og eiga að vera að spila sinn besta bolta. Nú er búið að pússa vel yfir gólfi í Seljaskóla og allt tilbúið,” sagði Eiríkur hressi í bragði við Karfan.is en ÍR-ingar hafa æft vela ð undanförnu.
,,Við höfum verið nokkuð upp og ofan í vetur en höfum samt unnið öll liðin nema Keflavík. Við höfum verið að taka svona tveggja til þriggja leikja sigurrispur sem er einmitt það sem þarf í svona úrslitakeppni,” sagði Eiríkur og vill koma fram hefndum gegn KR.
,,Þessi tvö lið eru stórveldin í Reykjavík og einvígið er mikil áskorun fyrir okkur. Við lékum gegn þeim í 8-liða úrslitum í fyrra og duttum út og erum enn að naga okkur í handarbökin yfir því að hafa ekki gert betur gegn þeim á okkar heimavelli í seríunni. Núna erum við mættir til þess að vinna KR og það verður gríðarlega erfitt,” sagði Eiríkur sem telur að ráðlegt væri fyrir ÍR að ná KR-ingum útúr þeirra leik.
,,Við þurfum kannski að auka hraðann og verjast svo vel með áherslu á fráköstin en sóknin okkar er yfirleitt sæmileg,” sagði Eiríkur sem verður 34 ára gamall síðar á árinu.
,,Skrokkurinn er fínn núna en þetta tímabilið er kannski í fyrsta skiptið sem ég er að lenda í meiðslum sem há mér svona meira og minna í gegnum allan veturinn. Það er leiðinlegt að geta ekki beitt sér af fullum krafti en við höfum breiðan og sterkan hóp. Það er klárlega farið að síga á seinni partinn hjá mér og hver veit nema þetta verði síðsta úrslitakeppnin mín,” sagði kappinn að lokum.
KR-ÍR kl. 16:00
DHL-Höllin í Vesturbænum



