spot_img
HomeFréttirEiríkur: Höfum góðan tíma til að þjappa hópnum saman

Eiríkur: Höfum góðan tíma til að þjappa hópnum saman

 
Eiríkur Önundarson setti niður 17 stig fyrir ÍR í gær þegar Breiðhyltingar máttu lúta í parket gegn Hamri í Hveragerði í Iceland Express deild karla. Eiríkur hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið en hann hefur sést stöku sinnum í ÍR-búning á tímabilinu en hann braut aðra hnéskelina í tvennt á þverveginn. Eiríkur sagði í samtali við Karfan.is að hann væri ekki kominn í fullt form og að þar vantaði töluvert uppá.
ÍR-ingar hafa ekki átt áfallalausa leiktíð þetta tímabilið því snemma var ljóst að landsliðsmaðurinn Sveinbjörn Claessen yrði ekkert með í vetur sökum meiðsla. Jón Arnar Ingvarsson lét af störfum sem þjálfari nú nýverið og þá er Vilhjálmur Steinarsson meiddur. ÍR-ingar fengu nýverið bandarískan leikstjórnanda til liðs við sig en hafa þó tapað síðustu fjórum deildarleikjum sínum og eru í 8. sæti deildarinnar.
 
,,Ég spilaði nokkra leiki fyrir áramót og svo bikarleikinn í síðustu viku en tók mér aftur hlé eftir síðasta leik fyrir jól þar sem hnéð þoldi illa álagið,“ sagði Eiríkur og taldi að líklegast hefði hann farið of snemma af stað.
 
Þrátt fyrir að setja niður 17 stig gegn Hamri í gær var Eiríkur ekki sáttur við frammistöðuna. ,,Ég var ekkert sáttur með mína frammistöðu í gær frekar en liðsins í heild. Við áttum afar slakan leik á báðum endum vallarins. Ég vil þó ekki taka neitt frá Hamarsmönnum, þeir spiluðu mjög vel og þá sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Eiríkur sem kveðst vera á réttri leið með hnémeiðslin en að töluvert vanti enn uppá hjá honum.
 
Með fjóra deildarósigra á bakinu inntum við Eirík að því hvernig ÍR-ingar ætluðu sér að snúa við blaðinu. ,,Þrír af þessum fjórum tapleikjum hafa verið á móti betri liðum deildarinnar. Engu að síður höfum við ekki náð að spila okkar besta leik. Við urðum fyrir áfalli í jólafríinu þegar að Jón Arnar þurfti að hætta. Gunnar Sverrisson tók við og síðan hefur bæst við bandarískur leikstjórnandi. Það tekur tíma fyrir lið að aðlagast breyttum áherslum og nýjum leikmanni. Við höfum núna góðan tíma til að æfa vel og þjappa hópnum saman,“ sagði Eiríkur en hvernig metur hann stöðu ÍR núna, liðið í 8. sæti í deildinni og komið í undanúrslit í bikarnum?
 
,,Staðan er ekki alslæm. Við þurfum þó að halda áfram að vinna í leik okkar. Stefnt er á að mjaka sér ofar í deildinni og vera svo í toppformi á réttum tíma. Í úrslitakeppni getur allt gerst. Hvað bikarinn varðar þá eigum við mjög erfiðan leik fyrir höndum. Við þurfum að ná algerum toppleik til að vinna Grindavík. Það yrði frábært að komast í Höllina enda erum við vanir að vinna þar,“ sagði Eiríkur en ÍR varð síðast bikarmeistari leiktíðina 2006-2007 en það var annar bikarmeistaratitill félagsins, sá fyrsti kom tímabilið 2000-2001.
 
Fréttir
- Auglýsing -